Körfubolti

Körfuboltakvöld: Betra að temja villtan leik­mann en að vera með ein­hverja rolu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Khalil Shabazz ætti að vera áfram í Grindavík að mati Sævars, þó hann sé stundum svolítið villtur.
Khalil Shabazz ætti að vera áfram í Grindavík að mati Sævars, þó hann sé stundum svolítið villtur. vísir / sýn skjáskot

Í annað sinn á tímabilinu tapaði Grindavík í gærkvöldi, og gerði það með sannfærandi hætti. Félagaskiptaglugginn fer að loka og Körfuboltakvöld velti því fyrir sér hvort liðið ætti að losa Khalil Shabazz og fá nýjan Bandaríkjamann í hans stað.

„Stundum hafa heyrst raddir úr Grindavík, sem segja að Khalil Shabazz sé ekki alveg málið“ sagði þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson.

„Við erum búnir að heyra þetta bara nánast frá því að hann kom í Grindavík“ svaraði Benedikt Guðmundsson úr sérfræðingastólnum.

„Hann á sína haters, það er alveg klárt mál, en ef ég væri þjálfari Grindavíkur myndi ég ekki þora því að skipta honum út. Liðinu er búið að ganga vel með hann. Auðvitað hefur spilamennskan ekki alltaf verið sannfærandi en að fara á þennan markað og taka sénsinn…

…Segjum að þeir kasti teningunum og taki áhættuna, það eru alveg góðar líkur á því að þú fáir bara verri leikmann. Kannski með flottan prófíl en hann getur verið ekki í leikformi eða annað, það er alltaf áhætta að taka menn inn þegar svona langt er liðið á tímabilið“ bætti Benedikt við.

Sævar Sævarsson tók undir úr hinum sérfræðingastólnum og sagði ósniðugt að skipta Shabazz út.

„Hann er svolítið villtur en ég held að það sé miklu betra að vera með leikmann sem er smá villtur og temja það svo þegar þú kemur í úrslitakeppnina. Frekar en að vera með einhverju rolu sem þú nærð einhvern veginn aldrei að kveikja á.“

Klippa: Ætti Grindavík að skipta Shabazz út?

Umræðuna úr Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×