Skoðun

Viðhaldsstjórnun

Sveinn V. Ólafsson skrifar

Eftirfarandi „frétt“ birtist nýlega í héraðsblaði:

Ákveðið hefur verið að fella niður skólahald hjá nemendum 7 til 10 bekkja barnaskólans á Höfða eftir að húsnæði skólans var lokað vegna raka og myglu. Skólanum var lokað eftir að skoðunarskýrsla verkfræðistofunnar Lausnir ehf. leiddi í ljós óviðunandi ástand á húsnæði skólans. Skólastjórinn segir ekki tímabært að segja til um hvort hægt verði að lagfæra húsnæðið og vísaði á sveitarfélagið hvað varðar framhaldið.

Þessi saga er ekki einstök, þvert á móti við höfum við oft heyrt og lesið slíkar fréttir um raka og myglu síðustu árin. En hvað veldur þessu og er mögulegt að gera betur?

Skoðunarskýrsla sérhæfðra aðila t.d. verkfræðistofa lýsir ástandi bygginga og gefur upplýsandi stöðu um möguleika hvað varðar reglubundið viðhald, viðgerðir eða endurnýjun. Regluleg vöktun með ástandi bygginga er lykilþáttur í að skipuleggja tímanlega íhlutun og hafa stjórn á ástandi þeirra yfir allan líftímann. Dagleg vöktun er ekki endilega flókin í framkvæmd en krefst ákveðinnar þekkingar, t.a.m. getur glöggur iðnmenntaður húsvörður verið mikilvægur í að sjá vandamál á byrjunarstigi og leitað hratt og örugglega eftir sérhæfðri aðstoð.

Viðhald er byggt á vöktun á ástandi sem fyrirbyggjandi aðferð til að koma í veg fyrir bilun eða algera stöðvun á rekstri eignarinnar. Vanræksla á viðhaldi leiðir til skyndilegra kostnaðarsamra viðgerða og annarra neikvæðra afleiðinga. Við ástandsvöktun eru notuð rauntímagögn til að meta ástand húsnæðis, tækja og búnaðar og þannig skipuleggja viðhald áður en vandamálin koma upp. Það dregur úr heildarkostnaði, minnkar hættu á húsnæðið nýtist ekki um skemmri eða lengri tíma og lengir þannig líftíma eigna. Vanræksla á viðhaldi ferli getur leitt til „óvæntra uppákoma“, s.s. bilana, mjög hás viðgerðarkostnaðar, minni framleiðni og mögulegrar heilbrigðis- og öryggisáhættu.

Þegar við erum að bíða á flugvelli og stefnum til suðrænna landa úr íslenskum hríðarbyl og kulda þá er verið að gera flugvélina okkar klára í áframhaldandi flug. Kröfur um viðhald loftfara bjóða ekki upp á að fresta viðhaldsverkum og hvað þá að þeim sé sleppt. Það er t.d. ekki í boði að ætla að fresta því að skipta um ónothæf dekk. Viðhaldið þarf að ganga eins og áreiðanlegt klukkuverk svo öryggi og heilbrigði sé áfram tryggt. Flugrekendur eru hugfangnir af áreiðanleika til að tryggja að loftför séu í topp standi og þannig hægt að nota þau í áframhaldandi flug. Það að tryggja öryggi og heilbrigði með réttu viðhaldi til að koma loftfarinu í áframflug er vísir að bestu mögulegu hagkvæmni.

Albert Einstein sagði eitt sinn:

„Snjall maður leysir vandamál.Vitur maður forðast það“.

Heimilslæknar eru líka ágætt dæmi um þá aðila sem hafa góða faglega yfirsýn á ástandi okkar bæði líkamlegu og andlegu. Þeir horfa t.d. mjög til þríliðunnar: blóðþrýstings, blóðfitu og sykurmagns í blóði. Raskist jafnvægi eins þáttar er hætta á ferðum, rakist hinsvegar jafnvægi allra er ástandið orðið grafalvarlegt og grípa þarf til róttækra aðgerða til að stöðva sem fyrst það slæma ferli sem er komið af stað.

Ástandsvöktun og skoðanir eigna virka nákvæmlega eins og „heilbrigðiskerfi“ fyrir eignir eins og byggingar, svipað og læknar fylgjast með heilsu manna til að tryggja öryggi, endingu og virkni. Eins og menn verða byggingar fyrir álagi, öldrun og hnignun, sem krefst reglulegrar eftirfylgni (skoðana) og stöðugrar vöktunar á gögnum í rauntíma til að koma í veg fyrir stórfelldar bilanir, stöðvunar á rekstri eða ótímabærar förgunar (dauða).

Markmið eignastjórnunar er að hámarka verðmæti eigna og lágmarka kostnað og áhættu sem tengist rekstri og viðhaldi þeirra. Árangursrík eignastjórnun frá viðhaldssjónarmiði felur í sér að nota gögn og greiningar til að taka upplýstar ákvarðanir, skipuleggja viðhald á besta mögulega vegu, forgangsraða aðgerðum út frá mikilvægi eigna og innleiða fyrirbyggjandi aðferðir til að hámarka hagkvæman nýtingartíma og lengja líftíma eigna.

Þrátt fyrir að aðferðar viðhaldsstjórnunar séu ágætlega þekktar þá er alltof oft misbrestur á að opinbeiri aðilar nýti sér hana og einungis er brugðist við óheppilegum aðstæðum eða bilunum sem koma upp hverju sinni. Undirritaður er ekki sérfræðingur um byggingar og mannvirki en hinsvegar ég veit að leki og rakamyndun er stóralvarlegt mál þegar birtist „óvænt“ í viðhaldsleysinu. Rétt viðhald á réttum tíma er viðfangsefni viðhaldsstjórnunar og tryggir um leið bestu hagkvæmni og lágmarkar þannig kostnað yfir líftíma eigna. Að beita fyrirhyggju við viðhald er einfaldlega hagkvæmara en að láta reka á reiðanum

Höfundur er ráðgjafi hjá Jensen ráðgjöf í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×