Íslenski boltinn

Svekktur að fá ekki leyfi til að taka við ÍBV

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Baldvin Þórðarson var farinn að velta fyrir sér hvað best væri að gera varðandi lið ÍBV en nú er ljóst að hann verður áfram í Víkinni.
Aron Baldvin Þórðarson var farinn að velta fyrir sér hvað best væri að gera varðandi lið ÍBV en nú er ljóst að hann verður áfram í Víkinni. Samsett/Diego/Víkingur

Þjálfarinn ungi Aron Baldvin Þórðarson segist ekki ætla að erfa það við Víkinga að hafa komið í veg fyrir að hann tæki að sér sitt fyrsta aðalþjálfarastarf, sem þjálfari karlaliðs ÍBV í Bestu deildinni í fótbolta.

Þetta sagði Aron Baldvin í viðtali við Fótbolta.net í dag en þessi þrítugi þjálfari er samningsbundinn Víkingum og var aðstoðarþjálfari liðsins sem varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð, eftir að hafa áður verið leikgreinandi.

Eyjamenn hafa síðustu vikur verið í leit að nýjum þjálfara, eftir að Þorlákur Árnason hætti óvænt í byrjun desember. Þorlákur kvaðst ekki hafa getað unað við það að fyrirliði ÍBV, Alex Freyr Hilmarsson, hefði verið gerður að framkvæmdastjóra knattspyrnudeildarinnar.

Aron Baldvin var orðinn spenntur fyrir þessu stóra tækifæri til að færa sig til Vestmannaeyja og standa á eigin fótum sem aðalþjálfari. ÍBV var komið í viðræður við Víkinga um kaupverð fyrir þjálfarann en þeim viðræðum var svo slitið.

„Ég get alveg viðurkennt það að ég var mjög svekktur og þetta var alveg högg fyrir mig,“ sagði Aron Baldvin við Fótbolta.net.

„Ég gerði ráð fyrir því að félögin myndu ná saman. Þetta var stórt tækifæri og mér fannst ég vera tilbúinn í það, hausinn var alveg aðeins kominn þangað, farinn að pæla hvað maður gæti gert með ÍBV.“

Eins og fyrr segir ætlar Aron Baldvin, sem er bróðir Stígs Diljans leikmanns Víkings, þó ekki að láta málið hafa áhrif á samband sitt við Víking sem hann bendir á að hafi veitt sér afar stórt tækifæri:

„Þegar ég heyrði hlið Víkinga, hversu mikilvægur ég væri fyrir félagið, þá eru engar slæmar tilfinningar eftir þetta. Víkingur hefur gefið mér rosaleg tækifæri, ég kom inn fyrir sex árum síðan sem aðstoðarþjálfari í 4. flokki og á 6-7 árum er ég orðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Ég hef lært gríðarlega mikið hérna og er með stórt Víkingshjarta. Núna horfi ég á þetta stóra verkefni framundan í Víking og legg allt í sölurnar að hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum,“ sagði Aron Baldvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×