Enski boltinn

„Við vitum ekkert um nýjan knatt­spyrnu­stjóra“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reece James segir eitthvað við Calum McFarlane í leikslok en McFarlane stýrði liðinu í kvöld. Það mátti greinilega enginn vita hvað James sagði þarna.
Reece James segir eitthvað við Calum McFarlane í leikslok en McFarlane stýrði liðinu í kvöld. Það mátti greinilega enginn vita hvað James sagði þarna. Getty/Shaun Botterill

Chelsea-maðurinn Reece James var í viðtali eftir dramatískt 1-1 jafntefli við Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en Chelsea jafnaði metin á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Knattspyrnustjórinn Enzo Maresca hætti með liðið tveimur dögum fyrir leik og Calum McFarlane, þjálfari 21 árs liðsins, stýrði liðinu á Ethiad-leikvanginum í kvöld.

„Við urðum að sætta okkur við það sem gerðist fyrr í vikunni og setja það til hliðar. Í fyrri hálfleik gerðum við smávægileg mistök en í þeim seinni óx okkur ásmegin. Við vissum að færið myndi koma og þessi gaur [ýtir létt við Enzo Fernandez við hliðina á honum] nýtti það,“ sagði Reece James.

„Það er hægt er að hrósa starfsfólkinu sem tók við keflinu. Það er erfitt að spila útileik gegn City í fyrsta leik. Við urðum að aðlagast hratt. Okkur fannst þeir vera of mikið með boltann í fyrri hálfleik svo við þurftum að gera smávægilegar breytingar í hálfleik,“ sagði James.

„Við börðumst sem lið í dag og ég er stoltur af strákunum. Það er erfitt þegar knattspyrnustjóri fer en við verðum að berjast hver fyrir annan,“ sagði James.

„Við vitum ekkert um nýjan knattspyrnustjóra. Öll vikan okkar snerist um að undirbúa okkur fyrir þennan leik,“ sagði James.

„Það sem gerist á bak við tjöldin er ekki undir okkur komið. Við komum hingað. Við einbeittum okkur að leiknum. Við tókum stig á mjög erfiðum útivelli. Við þurfum að jafna okkur. Við sjáum hvað gerist á næstu dögum,“ sagði James.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×