Erlent

Flug­sam­göngur lamaðar og þúsundir sitja fastar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá flugvellinum í Aþenu í dag.
Frá flugvellinum í Aþenu í dag. AP/Yorgos Karahalis

Þúsundir manna eru strandaglópar víða um Evrópu eftir víðtæka bilun í samskiptakerfi grískra flugyfirvalda. Búið er að loka lofthelgi Grikklands vegna bilunarinnar. 

Í morgun kom upp bilun í samskiptakerfi flugyfirvalda sem varð til þess að flugumferðarstjórar gátu ekki talað við flugmenn sem voru á leið um lofthelgi landsins. Ákveðið var að loka lofthelginni á meðan unnið væri að lagfæringu. 

Búið er að loka einhverjum völlum alfarið, þar á meðal vellinum í Þessalóníku sem er næststærsta borg landsins á eftir höfuðborginni Aþenu. 

Tímasetning bilunarinnar þykir mjög svo óheppileg, samkvæmt grein breska ríkisútvarpsins. Fjöldi fólks sé á leið aftur heim til Grikklands eftir dvöl erlendis yfir hátíðarnar.  

Flugvélum sem voru þegar lagðar af stað til borgarinnar hefur verið beint til Tyrklands. Öðrum ferðum hefur verið frestað eða aflýst vegna ástandsins. 

Talið er að bilun hafi komið upp í loftneti í Geraníu-fjöllum nærri Aþenu. Unnið er að lausn svo flugumferð komist aftur í rétt flæði. 

Ekkert flugfélag er með beint áætlunarflug milli Íslands og Grikklands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×