Fótbolti

„Einn besti markmaður heims“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Joan García hefur átt frábært fyrsta tímabil með Barcelona.
Joan García hefur átt frábært fyrsta tímabil með Barcelona. Joan Valls/Urbanandsport/NurPhoto via Getty Images

Varnir vinna titla og markverðir eru sannarlega inni í myndinni þar eins og Joan Garcia, markmaður Barcelona, sýndi í gærkvöldi þrátt fyrir baul úr stúkunni.

Joan Garcia gekk til liðs við Barcelona síðasta sumar frá nágrannaliðinu Espanyol og fékk því kaldar kveðjur þegar hann sneri aftur á sinn gamla heimavöll í Katalóníu í gærkvöldi.

Stuðningsmenn Espanyol mættu með útprentaðar myndir af rottum í Barcelona búning og peningaseðla með myndum af andliti García.

Barcelona vann leikinn 2-0 eftir að hafa skorað tvö mörk á síðustu fjórum mínútum leiksins en fram að því hafði García varið eins og óður maður til að halda stöðunni jafnri.

Þetta var alls ekki fyrsta frábæra frammistaða García á tímabilinu, hann hefur verið einn besti leikmaður Barcelona og tekið Marc Andre Ter Stegen alveg úr myndinni.

García kostaði Barcelona aðeins 25 milljónir evra. Sem þykir frekar ódýrt fyrir heimsklassa markmann í verðbólgu nútímafótboltans og sérstaklega hentugt fyrir lið í miklum fjárhagslegum vandræðum.

„Joan García er einn besti markmaður heims“ sagði þjálfarinn Hansi Flick eftir leikinn í gærkvöldi.

„Hann er stórkostlegur, ótrúlegur. Hann gefur liðinu svo mikið og á bara eftir að verða enn betri“ sagði liðsfélaginn Dani Olmo.

Spænski miðillinn Marca fjallar um frábært tímabil García og segir Spánverja furða sig á því að hann hafi aldrei verið valinn í A-landsliðið en markmaðurinn á leiki fyrir öll yngri landsliðin og varð Ólympíumeistari með u23 ára liðinu árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×