Sport

„Þessi sigur var rosa­lega mikil­vægur“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Hjalti Þór, þjálfari Álftanes, var sáttur með sigur liðsins í kvöld.
Hjalti Þór, þjálfari Álftanes, var sáttur með sigur liðsins í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Álftanes sigraði Ármann með 35 stigum í Bónus deild karla í kvöld, 75-110. Liðið hafði tapað fimm leikjum í röð í deildinni og var sigurinn því kærkominn, ekki síst eftir að Kjartan Atli Kjartansson sagði upp störfum sem þjálfari liðsins eftir stærsta tap sögunnar í efstu deild á Íslandi gegn Tindastóli á heimavelli.

Hjalti Þór Guðmundsson sem hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins tók við keflinu á dögunum og var sigurinn því sá fyrsti undir hans stjórn.

„Allir sigrar eru mikilvægir og sérstaklega þegar þú ert búinn að vinna fjóra leiki og ert búinn að vera að „ströggla“ í þessa sjö leiki sem við erum búnir að tapa í röð. Þessi sigur var rosalega mikilvægur,“ sagði Hjalti Þór Guðmundsson, þjálfari Álftanes.

„Við þurfum að halda áfram eins og við erum búnir að vera að gera. Æfingarnar hafa verið flottar og við þurfum að læra svolítið af þessum leik. Að vera ekki of „passívir“, vera svolítið frjálsir og láta svolítið vaða líka.“

Álftanes er í 6. sæti sem stendur eftir tólf umferðir með 10 stig. Álftanes á leik á heimavelli gegn Þór Þorlákshöfn í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×