Fótbolti

Fílabeinsstrendingar tryggðu topp­sætið í uppbótartíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Wilfried Zaha og félagar tryggðu toppsætið.
Wilfried Zaha og félagar tryggðu toppsætið. Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Bazoumana Touré skoraði síðasta mark ársins í Afríkukeppninni í fótbolta og tryggði Fílabeinsströndinni 3-2 sigur gegn Gabon. Kamerúnar verða því að láta sér annað sætið nægja.

Gabon var dottið úr leik en lét ekki segjast og tók tveggja marka forystu í fyrri hálfleik þökk sé Denis Bouanga og Guélor Kanga.

Fílabeinsströndin náði að minnka muninn rétt fyrir hálfleik, með marki Jean-Philippe Krasso eftir stoðsendingu Wilfried Zaha.

Fílabeinsstrendingar sneru leiknum síðan algjörlega við í seinni hálfleik. Christopher Operi lagði jöfnunarmarkið upp fyrir Evann Guessand og Bazoumana Touré tryggði sigurinn í uppbótartíma, einnig eftir undirbúning Operi.

Fílabeinsströndin endar því í efsta sæti F-riðils en Kamerún í öðru sæti.

Kamerún lenti líka undir gegn Mósambík en tókst að snúa leiknum við og vinna 2-1 sigur. Feliciano Jone Nene og Christian Kofane skoruðu mörkin.

Kamerún mun mæta Suður-Afríku í sextán liða úrslitum en Fílabeinsströndin fær leik gegn Búrkína Fasó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×