Enski boltinn

Vill ekki segja hversu lengi Bruno er frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ruben Amorim segir að Bruno Fernandes missi af leiknum við Newcastle en ekki meir um meiðsli hans.
Ruben Amorim segir að Bruno Fernandes missi af leiknum við Newcastle en ekki meir um meiðsli hans. Getty/Marc Atkins

Rúben Amorim, þjálfari Manchester United, staðfesti á blaðamannafundi í dag að miðjumennirnir Bruno Fernandes og Kobbie Mainoo verði báðir fjarri góðu gamni þegar lið hans mætir Newcastle United á annan í jólum.

Bruno Fernandes hefur vart misst af leik fyrir Manchester United á árum hans með liðinu en þurfti að víkja af velli í 2-1 tapi fyrir Aston Villa síðustu helgi vegna eymsla í læri.

Amorim staðfesti á blaðamannafundi í dag að Bruno verði eitthvað frá. Hann nái ekki leiknum við Newcastle og geri má ráð fyrir að hann spili ekki fyrr en á nýju ári. Hann vildi þó ekki tjá sig um lengd meiðslanna.

„Ég vil ekki segja það. Ég hef ákveðna hugmynd um það, auðvitað, en við sjáum til,“ segir Amorim.

Kobbie Mainoo hefur fá tækifæri fengið hjá portúgalska þjálfaranum og sáu einhverjir fyrir sér að hann gæti stigið upp í fjarveru fyrirliðans Fernandes. Hann mun hins vegar ekki heldur spila gegn Newcastle.

„Þeir eru að jafna sig. Ég held það taki ekki of langan tíma en ég held að Kobbie jafni sig fljótar en Bruno,“ segir Amorim.

Amorim sagði á fundinum að hann búist þó við að Mainoo verði fljótari að jafna sig en Fernandes.

Aðeins einn leikur fer fram þetta árið á annan í jólum. Manchester United og Newcastle United mætast á Old Trafford klukkan 20:00.

Leikurinn verður, eins og allir aðrir leikir í ensku úrvalsdeildinni, sýndur í beinni á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×