Innlent

Vega­gerðin segir flóðin í Vík fyrir­séð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sjór gekk yfir þjóðveginn.
Sjór gekk yfir þjóðveginn. Vegagerðin

Fyrri flóð hafa veikt sjávarkambinn í Vík í Mýrdal með þeim afleiðingum að sjór gengur lengra inn á land en áður, jafnvel í veðrum sem teljast ekki slæm. Vegagerðin segir að þetta hafi verið fyrirséð þróun.

Mikill sjór gekk á land við Vík í Mýrdal í vikunni. Flóð myndaðist austan við þorpið og sunnan við þjóðveginn. Austan við Vík gekk sjór yfir þjóðveginn. Sveitarstjóri Mýrdalshrepps lýsir miklum áhyggjum af innviðum á svæðinu, sérstaklega í ljósi þess að á aðfangadag er spáð slæmu veðri og hárri sjávarstöðu.

„Þarna eru auðvitað innviðir. Þjóðvegur og innviðir sveitarfélagsins sem eru í bráðri hættu. Staðan er sú að þarna er viðvarandi landrof og fjaran er alltaf að færast nær og nær. Að öllu óbreyttu mun þjóðvegurinn fara í sundur ef ekki verður brugðist við,“ sagði Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í gær.

Talsvert af flóðvatni safnaðist upp austan við byggðina.Vegagerðin

Vegagerðin segir í tilkynningu að sveitarstjórinn fari með rangt mál þegar hann segi að Vegagerðinni beri að verja land sem hefur verið skipulagt. Hið rétta sé að land þar sem til eru mannvirki sem séu í forgangi. Vegagerðin hafi undanfarið unnið að greiningu í samstarfi við VSÓ verkfræðistofu þar sem unnin verði skilgreining á varnarlínu framan við þjóðveginn. Í kjölfar þeirrar greiningar verði komin mynd á þörf fyrir líklega flóðvörn á kafla framan við þjóðveginn til að koma í veg fyrir að sjór nái að honum.

„Í framhaldi af þessari vinnur verður lagt til að reist verði flóðvörn á kafla framan við þjóðveginn til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vegagerðin segist lengi hafa varað við því að strandlengjan við Vík sé mjög óstöðug og að varhugavert sé að byggja austan við varnarlínu sem dregin var árið 1994. Vegagerðin segir að þó svo að lægð sé spáð á aðfangadag sé gert ráð fyrir vægara veðri en olli flóðum fyrr í vikunni. Engu að síður megi gera ráð fyrir að sambærilegt veður og gekk yfir nýverið geti komið síðar í vetur.

Annarri lægð er spáð á aðfangadag.Vegagerðin

Til skamms tíma verður skoðað að rjúfa Kötlugarðinn, varnargarðinn austan við Vík, til að hleypa vatni til austurs þannig að stærra svæði taki við flóðvatni. Jafnframt mun Vegagerðin leggja til við sveitarfélagið að byggð verði tímabundin flóðvörn í vegstæði reiðvegar sem fyrir er. Til skoðunar er sömuleiðis að hækka þann veg nú þegar til að veita tímabundna vörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×