Enski boltinn

Skuldir Man United nú meira en 127 milljarðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe í stúkunni á United-leik að ræða málin við Jason Wilcox, yfirmann knattspyrnumála og framkvæmdastjórann Omar Berrada. 
Sir Jim Ratcliffe í stúkunni á United-leik að ræða málin við Jason Wilcox, yfirmann knattspyrnumála og framkvæmdastjórann Omar Berrada.  Getty/Simon Stacpoole

Nettóskuldir Manchester United hafa í fyrsta sinn farið yfir einn milljarð dala vegna lántaka í sumar til leikmannakaupa, sem hefur fært heildarskuldir félagsins í hæstu stöðu frá yfirtöku Glazer-fjölskyldunnar árið 2005.

Einn milljarður Bandaríkjadala er 127 milljarðar í íslenskum krónum.

Í fyrsta ársfjórðungsuppgjöri félagsins, sem birt var í dag, voru langtímalán United – skuldabagginn sem safnast hefur upp frá skuldsettri yfirtöku Glazer-fjölskyldunnar sögð vera 481 milljón punda eða 82 milljarðar króna.

En með því að United notaði aðrar 105 milljónir punda af yfirdráttarheimild sinni – viðbótarlántökuleið – og færði heildarlántökur sínar þar í 268 milljónir punda, hafa heildarnettóskuldir United vaxið í 749 milljónir punda sem er meira en milljarður dollara og meira en 127 milljarðar íslenskra króna.

United hefur staðið í skilum með gríðarlegar skuldir sínar síðan Glazer-fjölskyldan, eigendur NFL-liðsins Tampa Bay Buccaneers, keypti hið áður skuldlausa félag fyrir tuttugu árum.

INEOS Group, undir forystu ríkasta manns Bretlands, Sir Jim Ratcliffe, varð minnihlutaeigandi í febrúar 2024 eftir að hafa eignast 27,7% hlut í félaginu í samningi sem kostaði 1,3 milljarða punda eða 222 milljarða króna.

Ratcliffe og INEOS hafa síðan staðið fyrir niðurskurðaraðgerðum á Old Trafford sem miða að því að draga úr kostnaði og gera félagið sjálfbærara.

Þrátt fyrir að hafa í fyrsta sinn farið yfir milljarðs dala skuldaviðmiðið heldur framkvæmdastjóri United, Omar Berrada, því fram að nýjustu fjárhagsupplýsingar sýni að félagið sé að taka „miklum framförum í umbreytingu félagsins.“

United er án Evrópukeppni á þessu tímabili en liðið tilkynnti um þrettán milljóna punda rekstrarhagnað fyrir fyrstu þrjá mánuði tímabilsins, en á sama tímabili í fyrra varð 6,9 milljóna punda tap.

Heildartekjur United á tímabilinu lækkuðu um tvö prósent í 140,3 milljónir punda vegna fjarveru karlaliðsins úr Evrópukeppni, en liðið situr í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar undir stjórn Ruben Amorim.

Kvennaliðið, sem Marc Skinner þjálfar, situr í þriðja sæti ensku ofurdeildarinnar og keppir í Meistaradeild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×