Fótbolti

Ein­vígi Mbappé og Haaland í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé hefur raðað inn mörkum hjá Real Madrid á þessari leiktíð.
Kylian Mbappé hefur raðað inn mörkum hjá Real Madrid á þessari leiktíð. EPA-EFE/MICHELE MARAVIGLIA

Meiðslamartröðin heldur áfram hjá spænska fótboltaliðinu Real Madrid og nú gæti Kylian Mbappé misst af stórleiknum gegn Erling Haaland og félögum í Manchester City.

Meiðslalisti Real Madrid er orðinn mjög langur og strangur. Forföllin hafa verið hvað mest í vörninni en nú er liðið líka að missa miðju- og sóknarmenn í meiðsli.

Degi fyrir leikinn í Meistaradeildinni á móti enska liðinu sást Mbappé ekki á æfingu, að því er franska fréttastofan AFP greinir frá.

Frakkinn fingurbrotnaði í 0–2 tapinu gegn Celta Vigo í La Liga á sunnudag.

Fjarvera hans frá æfingunni er sögð vera vegna fingurbrotsins, en einnig vegna annarra óþæginda sem hann varð fyrir í sama leik, að sögn Real Madrid.

Spænska dagblaðið AS heldur því hins vegar fram að Mbappé geti í besta falli spilað takmarkaðan hluta af leiknum gegn City.

Þessi 26 ára leikmaður hefur skorað 25 mörk í 21 leik í öllum keppnum á þessu tímabili. Hann hefur verið stærsta stjarna Real Madrid.

Mbappé og Haaland eru í hópi allra bestu framherja heims og eru líklegir til að verða það í mörg ár í viðbót.

Landslið þeirra lentu einnig saman í riðli á HM næsta sumar þar sem Norðmenn eru með í fyrsta sinn frá 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×