Skoðun

Um lifandi tón­list í leik­húsi

Þórdís Gerður Jónsdóttir skrifar

Eitt af því skemmtilegsta og mest gefandi sem ég hef fengið að starfa við er að vera hljóðfæraleikari í leikhúsum borgarinnar. Ég hef komið fram á sýningum á vegum bæði Borgaraleikhússins og Þjóðleikhússins, auk þess að hafa tekið þátt í sjálfstæðum uppfærslum. Reynsla mín af því að starfa í leikhúsi hefur verið yfirgnæfandi jákvæð. Alls staðar hef ég fengið hlýjar móttökur og fengið að heyra hversu miklu máli það skiptir fyrir leikhúsin að hafa lifandi tónlist í sýningum. Þeir hljóðfæraleikarar sem ég starfa með hafa langflestir haft sömu sögu að segja og það að fá stöðu í hljómsveit í leiksýningu er eftirsótt vinna fyrir marga hljóðfæraleikara, enda er aðeins ein hljómsveit starfandi á Íslandi sem býður upp á fastar stöður (þ.e. Sinfóníuhljómsveit Íslands) og sú hljómsveit spilar nær eingöngu sígilda tónlist. Út af þessu hefur mér fundist dapurlegt að fylgjast með því hvernig lifandi tónlist í leikhúsum er orðin sífellt sjaldheyrðari.

Staða lifandi tónlistar í leikhúsum

Undanfarin ár hefur borið ansi mikið á því að tónlist í leikverkum, þar með talið í söngleikjum, sé tekin upp og leikin á stafrænu formi á sýningum. Eins virðist það að hafa færst í aukanna að tónlistin sé að hluta til tekin upp og spiluð yfir hljóðfæraleik fámennra flytjenda, líklega með það að markmiði að fá stærri og fjölbreyttari hljóm úr fámennari hljómsveitum. Taka skal fram að hér er ekki verið að fjalla um hljóðmyndir þar sem hljóðrituð tónlist, s.s. raftónlist, er hluti af hugmynd og listrænni sýn tónlistarstjórans, en slík tónlist getur að sjálfsögðu verið jafn áhrifamikil og innihaldsrík og lifandi tónlist. Það sem er bent hér á er að þeir sem sjá um tónlistarstjórn virðast í auknum mæli vera undir þeirri pressu að sjá sýningum fyrir margbrotinni hljóðmynd með afar litlum mannafla. Af þeim tónlistarstjórum sem ég hef rætt við er ástæðan að baki þessa nær eingöngu skortur á fjármunum sem varið er til lifandi hljóðfæraleiks í sviðslistum, frekar en listræn sýn tónlistarastjóra eða skortur á hljóðfæraleikurum sem hafa áhuga á eða hæfni til að spila í leiksýningum. Sérstaklega hefur mér fundist leitt að sjá að barnasýningar á þessu leikári, bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, hafa verið án lifandi hljóðfæraleiks.

Hvers vegna lifandi tónlist?

En það að hafa lifandi tónlist í leikhúsum er, að mati höfundar, ekki bara eitthvað sem skiptir hljóðfæraleikara máli, heldur er einnig hluti af því að viðhalda lifandi leikhúsformi, þar sem sýningar fá að þróast allt sýningartímabilið, sérstalega leiksýningar með söng og dansi. Þegar stuðst er við fyrirfram hljóðritaða tónlist, hvort sem er að fullu eða að hluta til, gefst leikurum, dönsurum og öðru sviðslistafóllki lítið tækifæri til fjölbreyttrar túlkunar á mismunandi sýningum. Ekki er hægt að velja að hafa lögin hraðari eða hægari og ekki er hægt að stytta eða lengja dramatískar pásur. Oft er nær ómögulegt að aðlaga tónlist að stemningu eða dagsformi leikhópsins. Að mati höfundar gerir fyrirfram hljóðrituð tónlist í leikhúsum einnig áhorfendum erfiðara með að taka þátt í leikverkinu sjálfu, þ.e. erfiðara er að aðlaga tímasetningar að viðbrögðum áhorfenda hvert sinn.

Að mínu mati er metnaðarfullt starf stóru leikhúsanna tveggja með eftirsóttari stafsvettvöngum atvinnuhljóðfæraleikara á Íslandi. Reynsla mín er að á báðum stöðum sé mikill vilji til að hafa hljóðfæraleikara starfandi við sýningar húsanna og á báðum stöðum hef ég átt einstaklega góða starfsreynslu. Að sama skapi finnst mér sem leikhúsgesti stórkostlegt að fara á sýningar með lifandi tónlist. Mig langar því að hvetja leikhússtjóra landsins, tónlistarstjóra leiksýninga og forsvarsmenn Félags íslenskra hljómlistarmanna til að standa betri vörð um lifandi tónlistarflutning í leikhúsum. Eins vil ég hvetja þessa aðila til að skoða hvort það sé ásættanlegt að krefja tónlistarstjóra um það að framkalla stórbrotin hljóm með litlum eða jafnvel engum lifandi flutningi. Á tímum gervigreindar og óvæginnar misnotkunar á höfundarétti tel ég þetta sérstaklega mikilvægt og aðkallandi. Við þurfum að spyrja okkur hvert þessi þróun mun leiða okkur ef haldið er áfram á þessari braut. Munum við sætta okkur við að leikhópar framtíðarinnar samanstandi aðeins að hluta til af mennnskum leikurum en að með sum hlutverk fari fyrirfram uppteknir leikarar á skjávarpa? Fyndist okkur í lagi að leikmynd og búningar heyrðu sögunni til og þeim bara varpað upp á skjá? Ef þetta er þróunin, til hvers þá að fara í leikhús? Og hvað með nýja Þjóðaróperu? Ættum við að sætta okkur við að láta söngvarana syngja karókí með undirleik fyrirfram hljóðritaðra sinfóníuhljómsveita? Að mínu mati verðum við að halda utan um mennskuna í listgreinum, ef mennska er á annað borð eitthvað sem okkur finnst að skipti máli. Berum virðingu fyrir mennsku listafólks og öðrum sem koma að sviðslistum en ekki síst mennsku áhorfenda, sem verða að hafa tækifæri til að bregðast við þeirri list sem þeir upplifa.

Höfundur er sellóleikari.




Skoðun

Sjá meira


×