Fótbolti

„Þegar kemur að mér fer fólk alltaf að­eins yfir strikið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar Junior fagnar sigri Santos í lokaumferðinni og um leið að sætið í deildinni væri tryggt.
Neymar Junior fagnar sigri Santos í lokaumferðinni og um leið að sætið í deildinni væri tryggt. Getty/Ricardo Moreira

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur opnað sig og sagt frá glímu sinni við andlega þáttinn á mjög erfiðu tímabili með uppeldisfélaginu sínu Santos.

Neymar átti á endanum mikinn þátt með að liðið hélt sér í deildinni og spilaði í gegnum meiðsli á lokasprettinum þegar læknar ráðlögðu honum að fara í aðgerð. Hann skoraði fjögur mörk í síðustu þremur leikjunum sem Santos vann alla 3-0.

Neymar segist hafa þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar á þessu tímabili.

„Eftir leikinn gegn Flamengo fékk ég allt of mikla gagnrýni. Þegar kemur að mér fer fólk alltaf aðeins yfir strikið,“ sagði Neymar.

„Og í þetta sinn var það í fyrsta skipti sem ég bað um hjálp eftir að tilfinningalegt ástand mitt náði núllpunkti. Ég hafði ekki lengur styrk til að koma mér á fætur aftur á eigin spýtur. Ég bað um hjálp,“ sagði Neymar.

„Þjálfarinn minn, liðsfélagar mínir, fjölskyldan mín voru gríðarlega mikilvæg á þessari stundu því þau hjálpuðu mér að komast aftur á mitt stig. Ég þakka þeim öllum, því ef það væri ekki fyrir þau, þá held ég að ég hefði ekki haft styrk til að koma til baka,“ sagði Neymar.

„Ég hafði farið í meðferð fyrir löngu síðan en það var ekki af því að mér liði illa, heldur bara af því að ég vildi sjálfshjálp, til að hjálpa sjálfum mér enn meira. En í þetta sinn var það í fyrsta skipti sem tilfinningalegt ástand mitt náði algjörum núllpunkti,“ sagði Neymar.

„Ég játa að ég er mjög sterkur tilfinningalega, þú veist. Ég þoli mikla gagnrýni og árásir, en í þetta sinn gat ég bara ekki meir,“ sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×