Skoðun

Fokk jú Austur­land

Kristján Ingimarsson skrifar

Þetta eru skilaboðin sem stjörnvöld hafa sent Austfirðingum með nýrri samgönguáætlun. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að skrifa pistil um samgöngumál, en vegna stöðunnar á Austurlandi er erfitt að sitja á sér.

Hvað þýða fyrirliggjandi áætlanadrög fyrir Austfirðinga? Slagorðið var „Ræsum vélarnar“ en eins og staðan er núna lítur út fyrir að á Austurlandi verði mjög hljólátt þar sem nánast öllum framkvæmdum er slegið á frest, hvort sem um er að ræða göng, þjóðveg 1 eða Öxi.

Og talandi um Öxi, þá hefjast framkvæmdir við heilsársveg yfir Öxi ekki að neinu marki fyrr en á tímabilinu 2031-2035 samkvæmt áætluninni. Eins og margir vita er umferð yfir Öxi oft á tíðum meiri en um þjóðveg 1 og er umferðarþunginn yfir þennan 18 kílómetra malarveg slíkur að ekki hefst undan að sinna viðhaldi á honum. Þá er ótalin slysahætta og þjóðhagsleg hagkvæmni þess að stytta leiðina milli Suðurlands og miðausturlands um 67 kílómetra. Vegurinn er langt kominn í hönnun og sveitarfélög á Austurlandi hafa verið einhuga um að framkvæmdin ætti að vera í forgangi. Ítrekar hefur framkvæmdums samt verið frestað þar en það sem þarf að gera er að færa til fjármuni og ræsa vélarnar.

Samkvæmt nýlegri greiningu Analytica skapar Austurland gríðarleg verðmæti, þar búa 2,9% landsmanna en þessi prósenta skilar 23% af útflutningstekjum þjóðarinnar sem er tæplega 10x hærra en annars staðar. Tekjurnar koma meðal annars frá sjávarútvegi, fiskeldi, álframleiðslu og ferðaþjónustu. Þar að auki er tæplega þriðjungur alls rafmagns íslendingar nota framleitt á Austurlandi. Þegar einn landsfjórðungur skilar jafn miklu inn í samneyslu þjóðarinnar ætti það ekki að leiða til þess að fjórðungurinn sitji eftir í innviðauppbyggingu en engar stórar framkvæmdir hafa verið í vegamálum á Austurlandi í áraraðir. Það næsta sem kemst því er brú yfir Hornafjarðarfljót, sem er í Suðurkjördæmi. Austfirðingar lifa í þeirri von að hlutur fjórðungsins verði réttur í meðhöndlun samgönguáætlunar á Alþingi.

Þegar samgönguáætlun verður tekin til umræðu á Alþingi vil ég hvetja alla alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, til að leiðrétta áætlunina og fylla upp í það holrúm sem hefur myndast í framkvæmdum á samgönguinnviðum á Austurlandi. Til dæmis með því að færa fjármuni sem ætlaðir eru í famkvæmdir við veginn yfir Öxi framar þannig að heilsársvegur verði kominn í gagnið á næstu fimm árum. Þó að mistök hafi átt sér stað við gerð í þessum drögum að samgönguáætlun, þá er enn tækifæri til að leiðrétta þau mistök.

Höfundur er Austfirðingur, búsettur á Djúpavogi.




Skoðun

Sjá meira


×