Íslenski boltinn

„Ég elska þig Ís­land, takk fyrir allt!“

Sindri Sverrisson skrifar
Samantha Smith skoraði meðal annars tvö mörk fyrir Breiðablik í bikarúrslitaleiknum í ágúst, í sigrinum á FH.
Samantha Smith skoraði meðal annars tvö mörk fyrir Breiðablik í bikarúrslitaleiknum í ágúst, í sigrinum á FH. vísir/Anton

Samantha Smith, ein allra besta knattspyrnukona hér á landi síðustu ár, hefur nú kvatt landið en kveðst að eilífu verða þakklát fyrir tíma sinn hér.

Sammy, eins og hún er kölluð, kom til FHL í Lengjudeildina í fyrra og raðaði þar inn mörkum, alls 15 í 14 leikjum, og átti þannig risastóran þátt í því að Austfirðir eignuðust lið í efstu deild eftir langa bið.

Hún fór svo til Breiðabliks í ágúst í fyrra og varð Íslandsmeistari með Blikum, og endurtók þann leik svo í sumar þegar hún varð einnig bikarmeistari.

Nú er þessi 24 ára Bandaríkjakona búin að ákveða að reyna fyrir sér annars staðar.

„Takk Breiðablik fyrir tvö ógleymanlegustu sumur lífs míns. Tveimur deildartitlum og einum Mjólkurbikar síðar er ég að eilífu þakklát fyrir tíma minn í grænu,“ skrifar Sammy á Instagram.

„Breiðablik er sannarlega besti klúbbur landsins og ég get ekki þakkað Nik eða klúbbnum nóg fyrir að hafa tekið sénsinn á mér á síðasta tímabili og fengið mig til að hjálpa til við að koma með og halda skildinum í Kópavogi.

Takk Ísland fyrir allar minningarnar og allt ógleymanlega fólkið sem er orðið hluti af fjölskyldu minni. Þessi staður er FULLUR af ást og ég er svo glöð að hafa getað kallað hann heimili mitt síðastliðin 2 ár.

Að því sögðu er tíma mínum í íslenskum fótbolta lokið í bili. Stórar fréttir eru í vændum en ég mun aldrei gleyma öllu sem Ísland, Breiðablik og FHL hafa gefið mér,“ skrifar Sammy í lauslegri þýðingu, áður en hún kveður á íslensku:

„Ég elska þig Ísland, takk fyrir allt, sjáumst!!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×