Viðskipti erlent

Netflix í við­ræðum um kaup á HBO frá Warner Bros

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ef af verður yrði um að ræða risa samruna á bandaríksum streymisveitumarkaði.
Ef af verður yrði um að ræða risa samruna á bandaríksum streymisveitumarkaði. Getty/Avishek Das

Bandaríska framleiðslufyrirtækið Warner Bros hefur hafið viðræður við Netflix um möguleg kaup Netflix á sjónvarps- og kvikmyndaveri fyrirtækisins og streymisveitunni HBO sem er í eigu Warner Bros. Fleiri fyrirtæki hafa lýst áhuga á að eignast myndver og streymisveitu Warner Bros en fyrirtækið er nú sagt aðeins eiga í viðræðum við Netflix sem hafi tekið forskotið í samkeppni við önnur fyrirtæki um kaupin.

Netflix er sagt reiðubúið til að greiða fimm milljarða bandaríkjadala í aðskilnaðargjald ef stjórnvöld fallast ekki á viðskiptin að því er viðskiptablaðið Bloomberg hefur eftir heimildarmönnum. Bloomberg fullyrðir að fyrirtækin muni tilkynna um áformin á allra næstu dögum, að því gefnu að viðræður renni ekki út í sandinn.

Viðræður fyrirtækjanna eru sagðar til marks um að Netflix sé komið með forskot á Paramount Skydance og Comcast sem einnig höfðu áhuga á að eignast streymisveitu og myndver Warner Bros Discovery. Í umfjöllun Guardian um málið segir að ef af verður muni viðskiptin fela í sér dramatískar breytingar á rótgrónu sjónvarps- og kvikmyndaumhverfi.

Markaðsvirði Warner Bros er sagt nema um 60 milljörðum bandaríkjadala og herma fregnir að Netflix hafi boðið verðið 28 til 30 dollara á hlut, en gengi í bréfum félagsins í dag er um 24 dollarar. Það gefur til kynna að kaupverðið gæti numið 70 til 75 milljörðum bandaríkjadala.

Greinendur hafa varað við því viðskiptin gætu haft neikvæðar afleiðingar á samkeppni, þar sem þau myndu fela í sér samruna tveggja af stærstu streymisveitum Bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×