Sport

Snæ­fríður sló sex­tán ára met Ragn­heiðar og annað met um leið

Sindri Sverrisson skrifar
Sveit Íslands sló Íslandsmetið í 4x50 metra skriðsundi.
Sveit Íslands sló Íslandsmetið í 4x50 metra skriðsundi. Mynd/simone castrovillari

Íslendingar byrjuðu af krafti í dag þegar keppni hófst á Evrópumótinu í sundi í 25 metra laug, í Lublin í Póllandi. Snæfríður Sól Jórunnardóttir sló tvö Íslandsmet í sama sundinu.

Metin féllu bæði þegar sveit Íslands keppti í 4x50 metra skriðsundi kvenna. 

Snæfríður synti fyrsta sprett á aðeins 24,68 sekúndum og náði þar með að bæta Íslandsmet Ragnheiðar Ragnarsdóttur, sem staðið hafði frá árinu 2009, um 26/100 úr sekúndu.

Þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Vala Dís Cicero og Birgitta Ingólfsdóttir tókus vo við og sáu til þess að sveitin setti einnig glæsilegt Íslandsmet í boðsundinu, á 1:40,61 mínúut. Þær bættu fyrra metið, frá því í Glasgow 2019, um þriðjung úr sekúndu, en Jóhanna og Snæfríður voru þá einnig í sveitinni.

Tíminn dugði þó ekki til að komast í úrslit en rúmar þrjár sekúndur vantaði upp á. Ísland hafnaði í 12. sæti af 16 sveitum.

Snorri Dagur Einarsson bætti sig þrátt fyrir glímu við veikindi.mynd/simone castrovillari

Fyrr í dag synti Jóhanna Elín 50 metra flugsund og hafnaði þar í 34. sæti á tímanum 27,13 sekúndum.

Næst þar á eftir voru þeir Símon Elías Statkevicius og Birnir Freyr Hálfdánarson í 50 metra flugsundi. Þar fór Birnir Freyr á 24,00, aðeins 0,20 frá sínu persónulega besta, og hafnaði í 46. sæti. Rétt á eftir honum var Símon Elías í 47. sæti á 24,11.

Snorri Dagur veikur en bætti sig

Birgitta Ingólfsdóttir synti sitt fyrsta sund, 100 metra bringusund, þar sem hún synti á 1:07.63 mínútu, aðeins 0,07 sekúndum frá sínum besta tíma.

Snorri Dagur Einarsson synti einnig 100 metra bringusund og náði þar glæsilegum árangri með nýju perónulegu meti, 58,40 sekúndum, og fór þar með 0,17 undir sínum besta tíma síðan á Evrópumeistaramótinu í Otopeni 2023. Þetta tókst Snorra þrátt fyrir glímu við veikindi en hann endaði í 32. sæti.

Guðmundur Leo Rafnsson stakk sér svo til sunds í 200 baksundi, sinni fyrstu grein á mótinu, og synti þar á 1:56.00.

Á morgun synda þau Birnir Freyr Hálfdánarson (100 metra fjórsund), Ýmir Chatenay Sölvason (200 metra skriðsund), Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Vala Dís Cicero (200 metra skriðsund) og að lokum má búast við spennandi sundi boðsundsveitar í 4x50 metra blönduðu fjórsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×