Fótbolti

Andre Onana skilinn eftir heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Onana er ekki einn af fjórum bestu markvörðum Kamerún.
Andre Onana er ekki einn af fjórum bestu markvörðum Kamerún. Getty/ Jacques Feeney/

Kamerún mun ekki treysta á krafta markvarðarins Andre Onana í komandi Afríkukeppni í fótbolta.

Þessi fyrrum markvörður Manchester United var ekki valinn í 28 leikmanna hópinn sem kemur mörgum á óvart.

Onana var aðalmarkvörður kamerúnska landsliðsins þar til að hann fór á láni frá Manchester United til tyrkneska félagsins Trabzonspor í september.

Onana fékk á sig mikla gagnrýni hjá United enda gerði hann sig sekan um mörg stór mistök í leikjum liðsins.

Onana hefur aftur á móti spilað vel með Trabzonspor á þessu tímabili og stuðningsmennirnir eru farnir að kalla hann Vegginn.

Landsliðsþjálfarinn Marc Brys valdi hann ekki sem einn af fjórum markvörðum sínum.

Hann veðjar frekar á þá Simon Omossola, sem spilar með Saint-Éloi Lupopo í Kongó, Devis Epassy sem spilar með Dinamo Búkarest í Rúmeníu, Simon Ngapandouetnbu sem spilar með Montpellier í Frakklandi og Edouard Sombang sem spilar með Colombe Sport í Kamerún.

Núverandi leikmaður Manchester United, Bryan Mbeumo, er í hópnum og mun því missa af mörgum leikjum liðsins í kringum jólahátíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×