Handbolti

Gísli Þor­geir fram­lengir til 2030: „Ó­trú­lega mikil­vægur hluti af liðinu okkar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson vann Meistaradeild Evrópu aftur með Magdeburg og var aftur valinn verðmætastur.
Gísli Þorgeir Kristjánsson vann Meistaradeild Evrópu aftur með Magdeburg og var aftur valinn verðmætastur. Getty/Jürgen Fromme

Íslenski landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur framlengt samning sinn við þýska handboltafélagið SC Magdeburg. Þetta kemur fram á miðlum félagsins í kvöld.

Gísli Þorgeir skrifaði síðast undir samning við félagið árið 2023 en sá samningur var til sumarsins 2028. Nýi samningurinn er til 30. júní 2030 en þá verður Gísli orðinn 31 árs gamall.

Gísli er mjög sáttur í austurhluta Þýskalands enda að spila fyrir topplið þýsku deildarinnar og ríkjandi Meistaradeildarmeistara.

Íslenski leikstjórnandinn kom til Magdeburg frá Kiel árið 2020 og hefur síðan orðið að einum besta leikmanni heims í sinni stöðu.

Gísli hefur unnið þýsku deildina tvisvar og Meistaradeildina tvisvar á þessum tíma. Hann var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn í bæði skiptin sem Magdeburg vann Meistaradeildina, þar á meðal síðasta vor.

„Gísli er leikmaður sem með elju sinni og ástríðu stendur fyrir allt sem SC Magdeburg táknar. Það sem hann leggur á sig á hverjum degi, það sem hann afrekar á vellinum og hvernig hann fer aftur og aftur út fyrir eigin mörk gerir hann að einstökum leikmanni í mínum augum,“ sagði Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, í frétt á heimasíðu félagsins.

„Gísli er ótrúlega mikilvægur hluti af liðinu okkar, bæði íþróttalega og mannlega, og ég er ótrúlega ánægður með að við gátum framlengt við hann,“ sagði Wiegert.

„Hvernig fólkið í Magdeburg lifir og fagnar handboltanum, hugarfarið hér, andrúmsloftið í höllinni – allt þetta líkar mér mjög vel við. Þú tekur eftir því á hverjum degi í borginni og þú tekur líka eftir því innan félagsins. Hvernig við höfum þróast sem lið síðustu ár er eftirtektarvert. Við viljum alltaf meira. Ég hlakka til að halda áfram á þessari braut með SCM,“ sagði Gísli Kristjánsson sjálfur í frétt á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×