Fótbolti

Ronaldo kveðst vera betri en Messi: „Vil ekki vera hóg­vær“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi heilsast fyrir vináttulandsleik Portúgals og Argentínu.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi heilsast fyrir vináttulandsleik Portúgals og Argentínu. getty/Laurence Griffiths

Cristiano Ronaldo kveðst vera betri fótboltamaður en Lionel Messi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju viðtali Ronaldos við Piers Morgan.

Í fyrsta brotinu sem birtist úr viðtalinu var Ronaldo spurður út í samanburðinn við Messi. Nýverið sagði fyrrverandi samherji Ronaldos hjá Manchester United, Wayne Rooney, að hann teldi Messi standa Portúgalanum framar. Ronaldo er ekki tilbúinn að kvitta upp á það.

„Ég er ekki sammála. Ég vil ekki vera hógvær,“ sagði hinn fertugi Ronaldo sem leikur með Al Nassr í Sádi-Arabíu.

Síðustu tæpa tvo áratugina hafa Ronaldo og Messi ítrekað verið bornir saman. Þeir voru lengi mótherjar á Spáni þegar Ronaldo lék með Real Madrid og Messi með Barcelona.

Ronaldo, sem er markahæsti landsliðsmaður sögunnar, hefur fimm sinnum unnið Gullboltann en Messi átta sinnum.

Ronaldo og Messi munu að öllum líkindum spila á HM næsta sumar en þeir verða þá fyrstu leikmennirnir til að taka þátt á sex heimsmeistaramótum. Messi vann HM fyrir þremur árum en Ronaldo varð Evrópumeistari með Portúgal 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×