Fótbolti

Ísak Berg­mann og fé­lagar nálgast Evrópu­sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar marki Ragnar Ache í dag en Kölnarliðið lék í þverröndóttum treyjum.
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar marki Ragnar Ache í dag en Kölnarliðið lék í þverröndóttum treyjum. Getty/Rolf Vennenbernd

Íslenski landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar hans í Köln unnu góðan heimasigur í þýsku deildinni í dag.

Köln vann þá 4-1 sigur á Hamburger SV fyrir framan fimmtíu þúsund manns á Rheinenergiestadion.

Köln er í sjöunda sæti deildarinnar með jafnmörg stig og liðið fyrir ofan en sex efstu sætin gefa Evrópusæti.

Ísak Bergmann var í byrjunarliðinu og spilaði fyrstu 67 mínútur leiksins. Hann átti eitt skot og bjó til tvö skotfæri fyrir liðsfélagana. 94 prósent sendinga hans í leiknum heppnuðst.

Ragnar Ache kom Köln í 1-0 á 25. mínútu og Florian Kainz skoraði annað markið á 48. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu.

Jean-Luc Dompe minnkaði muninn fyrir Hamburger SV á 61. mínútu en HSV missti svo tvo menn af velli með rautt spjald. Fyrsti fékk Immanuel Pherai sitt annað gula spjald á 79. mínútu og fjórum mínútum síðar fór Fabio Vieira sömu leið.

Said El Mala innsiglaði síðan sigur Köln með þriðja markinu í uppbótatíma og áður en yfir lauk var Jakub Kaminski búinn að skora fjórða markið. Þeir lögðu upp mark fyrir hvorn annan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×