Körfubolti

Þriðja tapið í röð hjá Jóni og fé­lögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Axel og félagar máttu þola sitt þriðja tap í röð í kvöld.
Jón Axel og félagar máttu þola sitt þriðja tap í röð í kvöld. vísir / hulda margrét

Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í San Pablo Burgos máttu þola sitt þriðja tap í röð er liðið tók á móti Zaragoza í spænsku ACB-deildinni í körfubolta í kvöld.

Burgos og Zaragoza unnu bæði í fyrstu umferð tímabilsins, en höfðu einnig bæði tapað næstu tveimur eftir það.

Jafnræði var með liðunum stærstan hluta leiksins í kvöld, en gestirnir í Zaragoza þó yfirleitt skrefinu framar.

Gestirnir leiddu með tveimur stigum að loknum fyrsta leikhluta og munurinn var sex stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan 44-50.

Zaragoza bætti svo einu stigi ofan á forystuna í þriðja leikhluta, en seig endanlega fram úr í þeim fjórða og vann að lokum 13 stiga sigur, 89-102.

Jón Axel lék rétt tæpar tuttugu mínútur fyrir San Pablo Burgos og skoraði tvö stig fyrir liðið, ásamt því að taka tvö fráköst og gefa eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×