Menning

Full­kominn vett­vangur til að verja vetrar­fríinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hátíðin fer fram í Bíó Paradís vikuna 25. október til 2. nóvember.
Hátíðin fer fram í Bíó Paradís vikuna 25. október til 2. nóvember.

Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram í tólfta sinn frá 25. október til 2. nóvember. Sýndar verða nýjar myndir í bland við gamlar auk fjölda annarra viðburða. Hátíðin lendir bæði á hrekkjavöku og vetrarfríi grunnskóla þannig það er ærið tilefni fyrir krakkana að kíkja í bíó.

Hátíðin varð upphaflega til í tengslum við fræðslusýningar í Bíó Paradís sem kvikmyndafræðingurinn Oddný Sen hélt utan um frá árinu 2011. Hátíðin var framlenging á þeirri hugmynd að sýna nýjar alþjóðlegar barna- og unglingamyndir hérlendis.

Þema hátíðarinnar í ár er „Stúlkur í aðalhlutverki“ sem endurspeglast í dagskránni og er jafnframt boðið upp á spunanámskeiðið „Stelpur leika!“ undir handleiðslu Steineyjar Skúladóttur. Hins vegar er eitthvað fyrir alla krakka á hátíðinni, nýjar myndir og gömul klassík, heimildarmyndasmiðjur og hrekkjavökufjör.

Auk sýninga er boðið upp á námskeið í kvikmyndagerð og frá 2023 hefur hátíðin boðið upp á skólasýningar úti á landi í samstarfi við List fyrir alla. 

Nýjar myndir í bland við klassík

„Hugmyndin með hátíðinni er að sýna nýjar og nýlegar verðlaunamyndir, sem eiga það sameiginlegt að auka kvikmyndalæsi, auka aðgengi barna og ungmenna að alþjóðlegum gæðakvikmyndum og efla sýnileika fjölbreytilegrar kvikmyndagerðar sem er svo sannarlega þörf á,“ segir Ása um hugmyndina að hátíðinni.

Þrjár nýjar myndir eru sýndar á hátíðinni sem halda áfram í bíó: Opnunarmyndin Halló Frida er talsett á íslensku og fjallar um barnæsku Fridu Kahlo, Geimstúlkuna og vélmennið eftir Kid Koala er án tals og ræður tónlistin þar ríkjum og loks er Dansdrottningin í Hollywood lokamynd hátíðarinnar

Þrjár nýjar barna- og unglingamyndir eru frumsýndar á hátíðinni.

Þá eru ótaldar fjölmargar aðrar myndir, tékkneska barnamyndin Töfragarðurinn sem Þórunn Lárusdóttir mun talsetja í lifandi flutningi, þýsk ævintýramynd um geimáhugastúlku og pólsk barnamynd um risaeðlu. 

„En þetta er ekki allt! Við erum með fjörutíu ára frábæra afmælissýningu á The Goonies sem öll fjölskyldan getur notið og klassík eins og The Witches, sem Svartir Sunnudagar settu á dagskrá í tilefni hátíðarinnar. Einar Áskell í lifandi talsetningu er ein langvinsælasta sýningin okkar og svo verða Múmínálfarnir líka sýndir,“ segir Ása.

Tvær sígildar verða sýndar.

Heimildarmyndagerð, draugahorn og þrjúbíó í vetrarfríi

Á hátíðinni er boðið upp á fleiri viðburði en bara bíósýningar.

„Við erum með æðislega dagskrá í vetrarfríinu. Þrjúbíó, draugahorn, hrekkjavökufjör - mánudag og þriðjudag hér í Bíó Paradís, það er ókeypis á dagskrána en barnaverð á kvikmyndirnar þessa daga. Skjaldbakan er svo með námskeið fyrir krakka í heimildamyndagerð og hægt verður að sjá afrakstur þessa námskeiðs í bíó á hátíðinni,“ segir Ása.

Ása Baldursdóttir er dagskrárstjóri Bíó Paradísar.

„Við erum svo í samstarfi við Sexuna sem er jafningjafræðsluverkefni sem ætlað er að fræða ungt fólk um birtingarmyndir stafræns ofbeldis. Viðfangsefni stuttmyndanna er tæling, nektarmynd, samþykki eða slagsmál ungmenna.“

Sýndar verða vinningsmyndir síðustu ára ásamt fræðslu um netnotkun ungmenna, ábyrga frásögn, og umfjöllun um sjálfsvíg laugardaginn 1. nóvember klukkan 13. Einnig verða sýndar fimm nýjar íslenskar stuttmyndir 2. nóvember í tengslum við Icelandic Queer Film Festival. Ókeypis er inn á báða viðburði.

Hverju ert þú spenntust fyrir?

„Ég er spenntust fyrir Halló Frida, sem talsett er á íslensku. Ég get ekki beðið eftir því að klæða börnin mín upp í Fridu Kahlo-búninga, fagna þessari skemmtilegu opnun næstkomandi laugardag og njóta þess að fara með þau í bíó næstu tíu dagana í Bíó Paradís. Þau upplifðu sýna fyrstu bíóferð bæði á hátíðinni og því eru þau bæði mjög spennt fyrir því að skoða dagskrána og velja myndir til þess að fara á,“ segir Ása að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.