Handbolti

Hatar hvítu stutt­buxurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veronica Kristiansen er ein þeirra handboltakvenna sem eru mjög ósáttar með að þurfa að spila í hvítum stuttbuxum.
Veronica Kristiansen er ein þeirra handboltakvenna sem eru mjög ósáttar með að þurfa að spila í hvítum stuttbuxum. Getty/Dean Mouhtaropoulos

„Burt með hvítar stuttbuxurnar“ er nú orðið að baráttumáli fyrir handboltakonur heimsins þegar styttist í næsta heimsmeistaramót kvenna í handbolta.

Norska handboltakonan Veronica Kristiansen er í hópi margra íþróttakvenna sem vilja ekki sjá hvítar stuttbuxur í sinni íþrótt. Kristiansen er jafnframt í hópi þeirra kvenna sem eru þvingaðar í að spila þessum óvinsælu hvítu stuttbuxum.

Í sömu stöðu í hverjum mánuði

„Ég hata hvítar stuttbuxur. Ég skil svo sem alveg að þær líti vel út. Við erum aftur á móti konur og lendum í ákveðnum kringumstæðum í hverjum mánuði. Það er því ekki gaman fyrir okkur að spila í hvítum buxum,“ sagði Veronica Kristiansen við NRK.

Umræðan um hvítu stuttbuxurnar í kvennaboltanum hefur verið lengi í gangi. Margar þjóðir og mörg félög hafa hlustað á konurnar en svo er ekki staðan í handboltanum.

Skiptu yfir í hvítar stuttbuxur

Kristiansen er nýkomin til baka eftir að hafa eignast sitt annað barn í janúar. Hún spilar með ungverska liðinu Györ sem hefur spilað þar í grænum buxum en félagið skipti nýverið yfir í hvítar buxur.

„Við höfum sagt það svo lengi að við viljum ekki spila í hvítum buxum en það fór ekki lengra en það,“ sagði Kristiansen.

„Fyrir mig sjálfa þá er þetta vandræðalegt og niðurlægjandi. Tíðahringurinn er eitthvað sem þú stjórnar ekki. Gerið þið það, í burtu með þessar hvítu stuttbuxur,“ sagði Kristiansen.

Eitthvað sem enginn vill

Norski landsliðsfyrirliðinn Henny Reistad tekur undir þetta. „Ég er ekki aðdáandi hvítu stuttbuxnanna heldur. Ef það er eitthvað sem enginn vill, þá á að hlusta á það. Þetta getur verið mjög óþægilegt fyrir okkur,“ sagði Henny Reistad.

Frétt hjá norska ríkisútvarpinu um málið. NRK Sport

Nú hafa handboltasambönd Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur líka skrifað saman bréf og sent Alþjóðahandboltasambandinu, IHF. Samböndin heimta reglubreytingu hjá IHF fyrir HM kvenna sem fer fram í Þýskalandi og Hollandi. Öll lið þurfa að vera bæði með ljósar og dökkar stuttbuxur í sínu búningasetti.

Blæðir í gegnum buxurnar

„Okkar reynsla segir það að sú regla að þurfa að vera í ljósum stuttbuxum sé tákn um kvenhatur,“ sagði Randi Gustad, forseti norska sambandsins.

„Óöryggið sem fylgir því hvort að það blæði í gegnum stuttbuxurnar þínar eða ekki er mjög óþægilegt fyrir konur í handbolta,“ sagði Gustad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×