Innlent

Lilja Rann­veig nýr ritari Fram­sóknar­flokksins

Lovísa Arnardóttir skrifar
Lilja Rannveig sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á síðasta þingi.
Lilja Rannveig sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á síðasta þingi. Vísir/Vilhelm

Lilja Rannveig er nýr ritari Framsóknarflokksins. Lilja hlaut 53 prósent atkvæða í kosningu sem fór fram síðdegis í dag á fundi miðstjórnar. Jónína Brynjólfsdóttir hlaut 27 prósent atkvæða og Einar Freyr Elínarson hlaut 19 prósent atkvæða. Ásmundur Einar Daðason fyrrverandi þingmaður og ráðherra hætti sem ritari í september.

Þrír voru í framboði til ritara, þau Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Jónína Brynjólfsdóttir varaþingmaður og oddviti í Múlaþingi og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir fyrrverandi þingmaður flokksins. Lilja sat á þingi fyrir flokkinn síðasta kjörtímabil og var þingmaður Norðvesturkjördæmis. Lilja Rannveig hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn síðustu ár.

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins fór fram á Hótel Nordica í dag. Í ræðu sinni tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson formaður að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri á komandi landsfundi.

Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins og fyrrverandi ráðherra hans, sagðist ekki vera búin að ákveða hvort að hún ætlar fram til formanns. Það sagði Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins í Reykjavík, líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×