Körfubolti

Hraðinn hjá Stjörnunni hentar Orra vel

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Orri Gunnarsson gaf sig á tal fyrir heimsókn Stjörnunnar til Keflavíkur í kvöld.
Orri Gunnarsson gaf sig á tal fyrir heimsókn Stjörnunnar til Keflavíkur í kvöld. vísir / ívar

Orri Gunnarsson segir hraðan leikstíl Stjörnunnar henta sér vel og telur hann vænlegan til árangurs gegn Keflavík í kvöld.

Orri er kraftframherji, svokallaður fjarki, sem spilar mikilvægt hlutverk hjá ríkjandi Íslandsmeisturunum.

„Ég passa mjög vel inn í það sem Baldur [Þór Ragnarsson, þjálfari] vill vinna með. Hann vill spila hratt og ég er ekki þessi týpíski stóri fjarki. Ég hleyp mikið og við getum notað það vel gegn hinum liðunum sem eru með stærri fjarka“ segir Orri.

Hann verður einmitt í baráttu við stærri menn í kvöld þegar hann tekst á við Jordan Williams og Craig Moller, leikmenn Keflavíkur.

„Ég held að þetta hraða leikplan muni bara virka mjög vel. Ég hef mikla trú á þessu“ segir Orri um andstæðinga kvöldsins.

Hann segir tímabilið hafa farið ágætlega af stað hjá Stjörnunni, eftir tap í fyrstu umferð fyrir KR og sigur í síðustu umferð gegn Val, og er ánægður með leikmennina sem komu nýir inn.

„Við vorum með mjög sterkt lið í fyrra en jafnvel bara jafn sterkt í dag. Fengum tvo mjög góða útlenska leikmenn [Luka Gasic og Pablo Bertone], missum Hilmar [Smára Henningsson], sem var auðvitað mjög sárt, en fengum Giannis Agravanis, sem var allavega topp fimm leikmaður í þessari deild í fyrra“ segir Orri um nýju og gömlu liðsfélaga sína.

Klippa: Orri Gunnarsson ræðir stórleik Stjörnunnar og Keflavíkur

Viðtal við Orra má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í kvöld verður í beinni útsendingu á Sýn Sport frá 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×