Erlent

Netanyahu segist stað­ráðinn í  því að heimta líkinn af Hamas

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar Gasa eru nú farnir að snúa aftur til heimkynna sinna, sem eru rústir einar.
Íbúar Gasa eru nú farnir að snúa aftur til heimkynna sinna, sem eru rústir einar. Getty/Doaa Albaz

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segist staðráðinn í því að þvinga Hamas liða til að skila líkamsleifum allra þeirra gísla sem létust í haldi samtakanna.

Níu lík hafa verið afhent hingað til en erfiðlega gengur að hafa uppi á nítján þeirra. Mörg virðast hafa verið grafin á stöðum þar sem erfitt er að komast að þeim.

Netanyahu tjáði sig við athöfn sem haldin var í gær í minningu þeirra hermanna Ísraelshers sem látist hafa á síðustu tveimur árum. Sagði hann að stjórnvöld héldu enn fast við það að ná fram öllum markmiðum sínum og að óvinir Ísraels hefðu nú upplifað að árásir gegn borgurum landsins yrðu goldnar dýru verði.

Hamas hafa fyrir sitt leyti sakað Ísraelsmenn um að brjóta gegn gildandi vopnahléi með því að skjóta 24 til bana frá því á föstudag. Stjórnvöld vinni statt og stöðugt að því að grafa undan samkomulaginu.

Ísraelsher hefur sagt að nokkrir Palestínumenn hafi ekki virt þau fyrirmæli að halda sig frá þeirri stöðu sem herinn tók sér í kjölfar vopnahlésins og að skotið hafi verið á viðkomandi til að „fjarlægja ógnina“.

Bandaríkjamenn hafa leitast við að gera sem minnst úr ásökunum beggja aðila og fullyrt að báðir séu enn staðráðnir í því að standa við skilmála vopnahléssamkomulagsins. 

Fulltrúar hjálparsamtaka á svæðinu segja þó langt í frá að það hafi gengið eftir að næg aðstoð sé að berast inn á svæðið. Smitsjúkdómar séu að dreifast þannig að ekki fæst við ráðið og þá séu aðeins þrettán spítalar af 36 á svæðinu enn starfandi, margir aðeins að hluta til. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×