Handbolti

Bjarni með tólf og KA vann meistarana

Sindri Sverrisson skrifar
KA-menn eru á meðal efstu liða í Olís-deildinni. Einar Birgir Stefánsson skoraði fimm mörk í kvöld.
KA-menn eru á meðal efstu liða í Olís-deildinni. Einar Birgir Stefánsson skoraði fimm mörk í kvöld. VÍSIR/VILHELM

KA-menn gerðu góða ferð til Reykjavíkur og unnu Íslandsmeistara Fram í Úlfarsárdal, 32-28, í Olís-deild karla í handbolta, 32-28. HK vann ÍR í Kórnum, 30-28, í slag tveggja neðstu liðanna.

HK-ingar eru eftir sigurinn með fjögur stig, líkt og Fram og Þór, en ÍR-ingar sitja eftir á botninum með aðeins eitt stig úr fyrstu sex umferðunum.

KA-menn eru aftur á móti í toppbaráttunni, með átta stig líkt og Haukar og Valur, tveimur á eftir toppliði Aftureldingar. Haukar eiga leik til góða við ÍBV í Eyjum á sunnudaginn.

Samkvæmt tölfræði HB Statz var Bjarni Ófeigur Valdimarsson í algjöru aðalhlutverki í Úlfarsárdal í kvöld og skoraði 12 mörk úr 15 skotum, þar af tvö úr vítum, fyrir KA. Einar Birgir Stefánsson kom næstur með fimm mörk og Bruno Bernat varði 14 skot í marki KA. Hjá Fram er Þorsteinn Gauti Hjálmarsson mættur aftur og skoraði fimm mörk en úr 16 skotum, og Rúnar Kárason skoraði einnig fimm en úr 10 skotum.

Leó Snær Pétursson var markahæstur HK-inga í sigrinum gegn ÍR með sjö mörk og Ágúst Guðmundsson skoraði fimm. Jökull Blöndal Björnsson var langmarkahæstur hjá ÍR með tíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×