Erlent

Frelsisflotinn um­kringdur og far­þegar fluttir til Ísraels

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Áhöfn Sirius-Haifa bíður eftir ísraelska sjóhernum.
Áhöfn Sirius-Haifa bíður eftir ísraelska sjóhernum. Skjáskot

Að minnsta kosti tuttugu ísraelsk herskip hafa ruðst um borð í eitt skipa Frelsisflotans svokallaða sem var á leið til Gasasvæðisins með aðgerðasinna, blaðamenn, heilbrigðisstarfsmenn og neyðarbirgðir um borð. Um er að ræða annað skip en það sem aðgerðasinninn íslenski Margrét Kristín Blöndal siglir með.

Samkvæmt umfjöllun Guardian nálguðust tuttugu herskip hið minnsta flotann þar sem hann sigldi út fyrir strönd Egyptalands. Ísraelski sjóherinn tilkynnti farþegum flotans að þeir væru að nálgast hafsvæði sem sætti herkví og að vildu þeir koma birgðum til hungursorfinnar Gasastrandarinnar yrðu þau að breyta um stefnu til hafnarborgarinnar ísraelsku Ashdod.

Skipunum var skipað að slökkva á vélum bátanna, að sögn farþeganna. Beint streymi er af þilförum margra bátanna og á myndefninu þaðan má sjá farþegana alla sitja í hring í björgunarvestum. Útsending margra streymanna hefur verið rofin.

Samkvæmt umfjöllun miðilsins Drop Site News sem er með blaðamann um borð í skipinu sem farið var um borð í var farþegunum skipað að fleygja farsímum sínum fyrir borð. Ritstjórnin hefur misst samband við blaðamanninn.

Frelsisflotinn samanstendur af rúmlega fjörutíu bátum og fimm hundruð aðgerðasinnum, stjórnmálamönnum og lögmönnum. Á meðal þeirra er aðgerðasinninn sænski Greta Thunberg og leikkonan Susan Sarandon. Auk þeirra er um borð í einu skipanna tónlistarkonan og aðgerðasinninn íslenski Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína, en hennar bátur lagði af stað í gær og er talsvert langt frá hættusvæðinu svokallaða. Það er svæðið sem Ísraelar leyfa sér að taka fólk fast á þrátt fyrir að það sé enn ekki innan löghelgi Ísraels.

Utanríkisráðuneyti Ísraels hefur staðfest í yfirlýsingu að nokkrir báta flotans hafi verið stöðvaðir og að farþegar þeirra verði fluttir til hafnar í Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×