Fótbolti

Mikil á­nægja með Mikael: „Hann hefur gjör­breytt liðinu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mikael Anderson fer vel af stað í Svíþjóð.
Mikael Anderson fer vel af stað í Svíþjóð.

Mikael Neville Anderson fer mjög vel af stað með Djurgarden og er hrósað í hástert af yfirmönnum sínum í Svíþjóð.

Mikael var keyptur af sænska félaginu í sumar og hefur komið við sögu í níu leikjum á þessu tímabili. Um helgina lagði hann upp 2-2 jöfnunarmark í leik gegn Hammarby, sem endaði síðan með 3-3 jafntefli.

Þjálfari liðsins, Jani Honkavaara, var spurður út í frammistöðu Mikaels í gær og hrósaði honum mikið.

„Ég er ánægður með breytingarnar sem við gerðum og alla nýju leikmennina, þeir hafa séð til þess að við erum eins og allt annað lið, meira að segja á æfingum.

Dýnamíkin í hópnum breytist alltaf þegar nýir leikmenn koma inn, sérstaklega leikmenn eins og Mikael. Hann hefur gjörbreytt liðinu, eins og sást í leiknum“ sagði Honkavaara.

Yfirmaður knattspyrnumála hjá Djurgarden, Bosse Andersson, hefur einnig hrifist mikið af Mikael.

„Hann er virkilega góður, ótrúlegur fagmaður sem rífur alla upp með sér. Hann gefur gott fordæmi og gerir aðra leikmenn enn betri. Í þessum leik var hann besti maður vallarins í þessar 75 mínútur sem hann spilaði. Hann vill taka ábyrgð og vill vera leiðtogi, sem boðar gott fyrir framtíðina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×