Erlent

Faðirinn á­kærður fyrir að beita Oscar of­beldi

Árni Sæberg skrifar
Oscar ásamt Sonju Magnúsdóttur, sem tók hann að sér ásamt eiginmanni sínum.
Oscar ásamt Sonju Magnúsdóttur, sem tók hann að sér ásamt eiginmanni sínum. Aðsend

Franklin Bocanegra Delgado, faðir Oscars Anders Bocanegra Florez, hefur verið ákærður fyrir líkamsárás og barnaverndarlagabrot, með því að hafa sparkað í sköflung sonar síns.

Þetta kemur fram í auglýsingu um fyrirkall og ákæru, sem birtist í Lögbirtingablaðinu í dag. Slíkar auglýsingar eru gefnar út þegar ekki er unnt að birta sakborningi ákæru með hefðbundnum hætti. Engan skildi furða að ekki hafi verið unnt að birta Franklin ákæruna, enda var honum vísað úr landi sumarið 2024 en ákæran ekki gefin út fyrr en í júlí síðastliðnum.

Vísað saman úr landi þrátt fyrir ofbeldið

Mikið hefur verið fjallað um mál Oscars sem kom hingað með föður og systur frá Kólumbíu. Oscar kom upphaflega til landsins árið 2022 með föður sínum. Íslensk hjón tóku Oscar að sér eftir að faðir hans hafði beitt hann ofbeldi. 

Feðgunum var vísað úr landi síðasta sumar áður en hjónin sóttu Oscar til Bogatá. Til stóð að vísa honum úr landi í júní eftir endanlega niðurstöðu frá kærunefnd útlendingamála en þeirri brottvísun var frestað vegna þess að líklegt þótti að honum myndi vera veittur ríkisborgararéttur á Alþingi. Það raungerðist þann 14. júlí síðastliðinn.

Spark í sköflunginn

Í ákæru á hendur föður hans, sem gefin var út daginn eftir að hann fékk ríkisborgararétt, segir að faðirinn sæti ákæru fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa, fimmtudaginn 16. maí 2024, á Hótel Hrauni í Hafnarfirði, veist með ofbeldi að syni sínum með því að sparka í vinstri sköflung hans.

Með því hafi hann beitt Oscar ógnunum og sýnt honum vanvirðandi háttsemi, yfirgang og ruddalegt athæfi. Þess er krafist að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×