Fótbolti

Sandra María fer aftur út í at­vinnu­mennsku

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sandra María Jessen var mögnuð fyrir Þór/KA á síðustu leiktíð.
Sandra María Jessen var mögnuð fyrir Þór/KA á síðustu leiktíð. vísir/Diego

Þór/KA hefur gengið frá samkomulagi við þýska úrvalsdeildarliðið 1. FC Köln um félagaskipti Söndru Maríu Jessen til þýska liðsins.

„Sandra María hefur því spilað sinn síðasta leik fyrir Þór/KA í bili og færir félagið henni hér með bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag til liðsins, félagsins og knattspyrnunnar á Akureyri“ segir í tilkynningu Þórs/KA.

Sandra heldur nú í atvinnumennsku erlendis í annað sinn á ferlinum en hún hefur áður leikið með Bayer Leverkusen í Þýskalandi (2016 og 2019-21) og Slavia Prag í Tékklandi (2018). Allan sinn feril á Íslandi hefur hún leikið með Þór/KA, tvisvar orðið Íslandsmeistari og tvisvar verið kjörin besti leikmaður deildarinnar. 

Hún var markahæst í Bestu deildinni í fyrra með 22 mörk í 23 leikjum og hefur skorað 10 mörk í 14 leikjum á þessu tímabili.

Frammistaða hennar með íslenska landsliðinu hefur einnig heillað marga og Sandra var mikilvægur hluti af hópnum á EM í sumar, sem vakti eflaust áhuga erlendra liða. 

1. FC Köln endaði í 10. sæti af 12 liðum þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×