Tíska og hönnun

Klæddist brúðarkjólnum dag­lega í stúdents­prófunum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Nína Rajani er viðmælandi í Tískutali.
Nína Rajani er viðmælandi í Tískutali. Aðsend

„Mér finnst það eigi ekki að vera nein bönn þegar það kemur að klæðaburði, allir eiga rétt á að klæða sig eins og þeir vilja,“ segir Nína Rajani Tryggvadóttir Davidsson sem fer eigin leiðir í klæðaburði. Hún ræddi við blaðamann um persónulegan stíl, fataskápinn og ógleymanleg stúdentspróf úr MR.

Nína er tuttugu ára gömul og starfar í íslensku tískuversluninni Yeoman á Laugavegi 7. Sömuleiðis er hún á fyrsta ári í arkitektúr í Listaháskóla Íslands.

Nína er tískudrottning og algjör pæja.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Tískan er svo einföld og falleg leið til þess að tjá sig, hún er hluti af hversdagsleika okkar allra en getur samt verið svo ólík og fjölbreytt. Það sem mér finnst svo heillandi við tísku er að það þarf ekki að vera í dýrustu eða nýjustu flíkinni. 

Mér finnst það frekar snúast um það hvernig maður er sniðugur með fötin sem maður á og nota þau til þess sýna eigin karakter og persónuleika.

Nína elskar tjáningarmáta og fjölbreytileika tískunnar.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Ég á ótrúlega erfitt með að velja bara eina flík en sú sem er í mestu uppáhaldi hjá mér hvítur pels sem ég fékk frá frænku minni. Hún keypti hann fyrir fimmtán árum á Facebook en hann er ótrúlega einstakur og fallegur. 

Frænka mín er helsta skvísu fyrirmyndin mín en mér fannst alltaf svo gaman að fylgjast með henni klæða sig upp þegar ég var yngri.
Hvíti pelsinn er í miklu uppáhaldi!Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Það fer algjörlega eftir því hvert ég er að fara eða hvað ég er að fara að gera. Ég er yfirleitt mjög fljót að velja föt fyrir skólann en það hefur gagnast mér mjög mikið að eiga mikið af einföldum og tímalausum flíkum sem passa við allt.

Ef ég ætla hins vegar að gella mig upp þá get ég varið miklum tíma í að velja mér föt. Ástæðan fyrir því er að ég á sætustu vinkonur í öllum heimi sem eru algjörar tískudrollur og þá þýðir ekkert annað en að mæta í sínu fínasta pússi.

Nína er umkringd öðrum tískudrottningum og elska þær að klæða sig upp fyrir hittinga.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég veit ekki alveg hvernig ég myndi lýsa stílnum mínum, en ég klæði mig mikið eftir því hvernig mér líður á hverjum degi. Ég myndi segja að stíllinn minn sé frekar einfaldur en ég hugsa mikið um snið og efni á flíkum.

Mér finnst samt líka gaman að brjóta upp á og klæða mig allt öðruvísi en ég geri vanalega. Mér finnst gaman að klæða mig í víð (e. baggy) og „karlmannlegri“ föt en ég elska líka að vera í kjólum og hælum. Stílinn minn fer svolítið í allar áttir og ég er alls ekki hrædd við að prófa eitthvað nýtt.

Nína er algjörlega óhrædd við að prófa nýja hluti í tískunni.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Já algjörlega! Í gegnum tíðina hef ég því miður keypt allt of mikið af hraðtísku eða fast fashion og fallið mikið fyrir svokölluðum micro trendum. 

Ég áttaði mig á þessu þegar ég var að þrífa fataskápinn minn og fyllti stóran ruslapoka af fötum sem ég notaði ekki oftar en tíu sinnum. 

Árið 2024 setti ég fyrir mér það markmið að kaupa ekki hraðtísku og vera meðvitaðri um hvaðan fötin mín eru að koma. Ég hef einnig reynt að tileinka mér minimalískt hugarfar þegar það kemur að fötum og ekki kaupa meira en það sem ég hef þörf á.

Nína forðast micro trend og fer eigin leiðir.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Mér finnst ótrúlega gaman að klæða mig upp. Frá því að ég var ung hef ég alltaf fundið fyrir miklu sjálfsöryggi í fötunum sem ég klæðist, en þetta hefur lengi verið mín leið til þess að tjá mig og vera skapandi. 

Það kemur þó alltaf fyrir að ég hafi ekki gaman af því að klæða mig upp og finnst ég ekki eiga nein flott föt. Þá finnst mér gott að hætta að ofhugsa og velja mér bara föt sem mér líður vel í.

Oft er best að hætta að ofhugsa og velja föt sem manni líður vel í!Aðsend

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Það sem skiptir mér mestu máli er að líða vel og vera samkvæm sjálfri mér. Þegar ég var yngri átti ég til að klæða mig eins og allir í kringum mig og pældi lítið í því hvað mér fannst um fötin mín.

Síðan þá hef ég lært að það sé jákvætt að skera sig úr og að hugsa ekki svona mikið um hvað öðru fólki finnst um þig.

Nína hefur lært að það sé jákvætt að skera sig úr!Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég myndi segja að ég sæki mikinn innblástur frá Danmörku. Eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla fór ég í lýðháskóla til Danmerkur og heillaðist mikið af tískunni þar. 

Mér finnst flott hvernig tískan þar er  afslöppuð eða „effortless“ en líka töff og útpæld. Annars finnst mér gaman að fylgjast með því sem fólk er að klæðist á götum Reykjavíkur og á samfélagsmiðlum.

Nína sækir innblástur bæði frá Danmörku og Íslandi.Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Boðin mín eru að leika sér með klæðaburð, vera skapandi og ekki að takmarka sig. Tíska er til þess að tjá sig, prófa sig áfram og finna það sem lætur manni líða vel og öruggur í eigin skinni.

Mér finnst ekki vera nein bönn þegar það kemur að klæðaburði, allir eiga rétt á að klæða sig eins og þeir vilja. Það sem er svo dýrmætt við tísku er að allir eru með sinn eigin stíl og það er skemmtilegt að sjá hvernig fólk túlkar það á sinn eigin hátt.

Nína er ekki með nein bönn í tískunni.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Ég myndi segja að það væri gamli brúðkaupskjóllinn hennar mömmu sem ég fékk lánaðan þegar ég útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Nína glæsileg í brúðarkjól móður sinnar á útskriftardaginn.Aðsend

Kjólinn hafði ekki verið notaður frá því að hún giftist árið 2003 og þess vegna fannst mér það vera svo mikill heiður að fá að klæðast honum á útskriftardeginum.

Það var svo dýrmæt stund þegar ég mátaði fyrst kjólinn með mömmu, en ég klæddist kjólnum yfir nær öll stúdentsprófin til þess að hvetja mig áfram.
Móðir Nínu glæsileg í brúðarkjólnum.Aðsend

Hvað finnst þér heitast fyrir haustið?

Ég er komin með smá æði fyrir prjónuðum ullarfötum, mér finnst það ótrúlega fallegt og chic. Einnig held ég að rúskinn verði með gott comeback í haust!

Prjónuð ullarföt eru í miklu uppáhaldi hjá Nínu.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Mitt helsta ráð er að eltast ekki við micro trends. Það er miklu meira virði í að safna vönduðum flíkum sem hægt er að nota aftur og aftur. Síðan skiptir það gríðarlega miklu máli að ekki vera að pæla mikið í öðru fólki.

Klæðaburður er svo persónulegur og snýst um hvað þú fílar og hvað lætur þér líða vel. Það er svo frelsandi að vera sama um hvað öðrum finnst, þegar manni tekst það, þá byrjar maður að nota föt til þess að tjá þig frekar en að fela þig.

Hér er hægt að fylgjast með Nínu á samfélagsmiðlinum Instagram. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.