Íslenski boltinn

Taplausir síðan Caulker kom inn í liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Caulker í leik með Southampton.
Steven Caulker í leik með Southampton. vísir/getty

Hinn þrautreyndi Steven Caulker virðist hafa góð áhrif á lið Stjörnunnar en það hefur ekki tapað leik síðan hann byrjaði að spila fyrir það.

Mikla athygli vakti þegar Caulker samdi við Stjörnuna enda ekki á hverjum degi sem menn með hans ferilskrá koma til að spila á Íslandi.

Hinn 33 ára Caulker er uppalinn hjá Tottenham en hefur komið víða við á ferlinum. Hann lék meðal annars nokkra leiki með Liverpool tímabilið 2015-16. Caulker skoraði í sínum eina landsleik fyrir England 2012 og hefur síðan 2022 leikið átján leiki fyrir landslið Síerra Leóne.

Í lok júní var greint frá því að Caulker hefði samið við Stjörnuna um að vera spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.

Hann lék sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Fram í Úlfarsárdalnum 6. ágúst. Síðan þá hafa Garðbæingar unnið þrjá leiki í röð og Caulker hefur spilað hverja einustu mínútu í þeim.

Í gær vann Stjarnan 1-2 sigur á KR á Meistaravöllum og komst með honum upp í 3. sæti Bestu deildarinnar. Stjörnumenn eru með 34 stig, þremur stigum á eftir toppliði Vals sem fær Aftureldingu í heimsókn í kvöld.

Í fjórum leikjum með Caulker í byrjunarliðinu hefur Stjarnan fengið tíu stig af tólf mögulegum, skorað níu mörk og fengið á sig fimm.

Stjarnan á tvo leiki eftir áður en deildinni verður skipt upp. Stjörnumenn fá KA-menn í heimsókn á sunnudaginn og sækja svo Valsmenn heim eftir landsleikjahléið, 14. september.


Tengdar fréttir

Uppgjör: KR-Stjarnan 1-2 | Örvar kom Stjörnunni inn í titilbaráttuna

Örvar Eggertsson skoraði bæði mörk Stjörnunnar í 2-1 sigri á KR í Vesturbænum í kvöld þegar liðið mættust í Bestu deild karla í fótbolta. Stjarnan er fyrir vikið aðeins þremur stigum á eftir toppliði Vals en þetta var þriðji deildarsigur Garðabæjarliðsins í röð og sá fjórði í síðustu fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×