Lífið

Lil Nas X laus gegn tryggingu

Atli Ísleifsson skrifar
Lil Nas X yfirgefur Van Nuys fangelsið í gærkvöldi.
Lil Nas X yfirgefur Van Nuys fangelsið í gærkvöldi. Getty

Bandaríska rapparanum Lil Nas X hefur verið sleppt úr fangelsi gegn 75 þúsund dala tryggingu sem samsvarar rúmlega níu milljónum króna.

Hinn 26 ára gamli rappari, sem heitir Montero Lamar Hill réttu nafni, var handtekinn á fimmtudaginn eftir að hafa ráfað um götur Los Angeles í Kaliforníu í nærbuxum og kúrekastigvélum einum klæða. Talið er að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna.

Þegar lögregla nálgaðist hann réðst hann á lögreglumennina og var hann handtekinn í kjölfarið. Hann hefur verið ákærður fyrir fjögur brot á alríkislögum og segja saksóknarar að hann eigi yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.

Lil Nas X varð frægur eftir útgáfu lagsins Old Town Road árið 2018, en lagið sat í nítján vikur á toppi bandaríska Billboard-listans.

Rapparinn er ákærður fyrir að hafa í þrígang ráðist á lögreglumann og svo að hafa neitað að fylgja fyrirmælum lögreglu. Erlendir fjölmiðlar segja hann hafa neitað sök í öllum ákæruliðum.

Lögregla telur hann hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann var handtekinn og þá hefur dómari fyrirskipað að hann sæki fjóra fundi fyrir fíkla í vikunni.

Lögmaður rapparans segir of snemmt að segja nokkuð til um hvort hann hafi verið undir áhrifum þegar hann var handtekinn þar sem enn sé ekki komin niðurstaða úr fíkniefnaprófi.

Hill, eða Lil Nas X, á að mæta næst fyrir dómara þann 15. september næstkomandi.


Tengdar fréttir

Lil Nas X ákærður fyrir brot á alríkislögum

Bandaríski rapparinn Lil Nas X hefur verið ákærður fyrir fjögur brot á alríkislögum. Hann var handtekinn fyrir helgi á meðan hann ráfaði um götur Los Angeles-borgar á nærfötunum og í kúrekastígvélum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.