Fótbolti

Aurier í bann vegna lifrar­bólgu

Sindri Sverrisson skrifar
Serge Aurier hefur meðal annars leikið með Nottingham Forest og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Serge Aurier hefur meðal annars leikið með Nottingham Forest og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. EPA/PETER POWELL

Serge Aurier, fyrrverandi leikmaður Tottenham, PSG og Nottingham Forest, hefur verið úrskurðaður í bann frá öllum fótbolta í Íran, aðeins mánuði eftir að hann gekk í raðir íranska félagsins Persepolis.

Íranska knattspyrnusambandið tilkynnti þetta og sagði að Aurier mætti ekki svo mikið sem mæta á æfingar á næstunni, en talið er að hann verði í banni næstu sex mánuðina.

Ástæðan mun vera sú að hann greindist með lifrarbólgu B, sem er veirusýking sem berst með blóði eða öðrum líkamsvessum á milli einstaklinga, og taldi íranska sambandið ekki annað hægt en að halda Aurier í einangrun þar til öruggt væri að hann hefði losnað við veiruna.

Flestir sem smitast af lifrarbólgu B jafna sig á nokkrum mánuðum og mun Aurier gangast aftur undir próf síðar til að ganga úr skugga um að hann geti ekki smitað neinn, áður en hann stígur aftur inn á fótboltavöllinn.

Aurier hefur hins vegar þegar brugðist við þessum fréttum á Snapchat-reikningi sínum þar sem hann sagðist vera á æfingu og að fréttirnar, sem miðlar á borð við L‘Equipe í Frakklandi hafa flutt, væru ekki réttar – það væri í góðu lagi með hann. Þá sýndi hann einnig liðsfélaga sinn í myndbandinu.

Samkvæmt írönskum miðlum eru forráðamenn Persepolis að íhuga að rifta samningi við Aurier. Hann kom til félagsins eftir að hafa verið orðinn samningslaus hjá Galatasaray á síðasta ári.

Þessi 32 ára bakvörður lék áður með Forest 2022-24, Villarreal 2021-22 og Tottenham 2017-21, eftir að hafa farið frá Frakklandi þar sem þessi öflugi landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar lék með PSG, Toulouse og Lens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×