Fótbolti

Sjáðu endur­komu Breiðabliks gegn Virtus og markið sem VAR dæmdi af

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Virtus tók óvænt forystuna úr vítaspyrnu en Tobias Thomsen átti síðan eftir að tryggja Breiðabliki sigur úr vítaspyrnu í seinni hálfleik. 
Virtus tók óvænt forystuna úr vítaspyrnu en Tobias Thomsen átti síðan eftir að tryggja Breiðabliki sigur úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.  vísir / diego

Breiðablik vann 2-1 endurkomusigur gegn Virtus frá San Marínó á Kópavogsvelli í gærkvöldi, í umspilsleik upp á sæti í Sambandsdeildinni. Mörkin og báða vítaspyrnudómana má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Breiðablik - Virtus 2-1

Breiðablik var mun betri aðilinn allan tímann en Virtus tók forystuna gegn gangi leiksins með marki sem kom upp úr skyndisókn. Sóknarmaður Virtus slapp í gegn og Viktor Örn Margeirsson stjakaði við honum, vítaspyrna dæmd og skoruð en Viktor var mjög ósáttur.

„Ég er að reyna að gera allt til að forðast snertingu en svo hendir hann sér niður og ég dett einhvern veginn fram fyrir hann. Ég held að ég snerti ekki á honum lappirnir, strýk aðeins á honum bakið en það er bara afþví hann er að henda sér niður“ sagði Viktor Örn um vítaspyrnudóminn.

Valgeir allt í öllu og mark dæmt af Guðmundi

Valgeir Valgeirsson jafnaði metin fyrir Breiðablik um korteri síðar og fiskaði síðan vítaspyrnu í seinni hálfleik, sem Tobias Thomsen skoraði úr og tryggði Breiðabliki 2-1 sigur.

Guðmundur Magnússon hélt að hann hefði skorað þriðja mark Breiðabliks og sitt fyrsta fyrir félagið í uppbótartímanum en hann var dæmdur rangstæður af fremur vanþróuðu VAR herbergi.

Breiðablik hefði hæglega getað unnið stærri sigur en fer til San Marínó einu marki yfir. Einvígið ræðst svo næsta fimmtudag og seinni leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×