Fótbolti

María mætt til frönsku ný­liðanna

Sindri Sverrisson skrifar
María Þórisdóttir er orðin leikmaður Marseille.
María Þórisdóttir er orðin leikmaður Marseille. om.fr

Miðvörðurinn þrautreyndi María Þórisdóttir, dóttir Þóris Hergeirssonar handboltaþjálfara, hefur yfirgefið England og samið við franska knattspyrnufélagið Marseille.

María var kynnt til leiks með skemmtilegu myndbandi frá franska félaginu.

María, sem er 32 ára landsliðskona Noregs, hafði spilað í Englandi frá árinu 2017, fyrst með Chelsea, svo Manchester United og tvö síðustu ár með Brighton.

Hún varð tvívegis Englandsmeistari með Chelsea, hefur spilað yfir sjötíu A-landsleiki fyrir Noreg, leikið í Meistaradeild Evrópu, og þannig mætti áfram telja.

Hún ætti því að geta miðlað af mikilli reynslu til sinna nýju liðsfélaga í liði Marseille sem á síðustu leiktíð vann sér sæti í efstu deild Frakklands á nýjan leik.

María hlaut ekki sæti í EM-hópi Noregs í sumar og var því ekki með í leiknum gegn Íslandi í Sviss. Hún var þó á meðal þeirra sem voru næst því að komast í hópinn.

Fyrsti leikur Marseille á komandi leiktíð í frönsku 1. deildinni verður gegn Lyon 6. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×