Viðskipti innlent

Besti fjórðungurinn í sögu Alvotech

Samúel Karl Ólason skrifar
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Annar fjórðungur þessa árs var sá besti í sögu líftæknifyrirtækisins Alvotech. Fyrri hluta ársins varð yfir tvö hundruð prósenta aukning á tekjum af sölu lyfja, samanborið við sama tímabil í fyrra.

Fyrirtækið birti í dag uppgjör fyrir fyrri hluta ársins en þar komur fram að tekjur af sölu lyfja voru 204,7 milljónir dala. Það samsvarar rúmum 25 milljörðum króna. Á sama tímabili í fyrra voru tekjurnar 65,9 milljónir dala eða um átta milljarðar króna. Í uppgjörinu segir að annar fjórðungur ársins hafi verið sá besti í sögu Alvotech.

Félagið átti þann 30. júní 151,5 milljónir dala í lausu fé og heildarskuldir þess voru 1,1 milljarður dala.

Áhugasamir geta fundið frekari upplýsingar hér á vef Alvotech. Uppgjörið verður kynnt af stjórnendum félagsins á morgun og verður hægt að hlusta á þá kynningu í beinni.

„Alvotech náði góðum árangri á fyrri helmingi ársins, þar sem tekjur af lyfjasölu jukust um meira en 200 prósent við sama tíma í fyrra. Þá var annar ársfjórðungur besti fjórðungur í sögu félagsins hvað varðar handbært fé frá rekstri. Nýir samningar um markaðssetningu sem kynntir voru á síðasta ársfjórðungi endurspegla vel þau miklu verðmæti sem fólgin eru í lyfjunum sem við erum að þróa,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins.

„Með kaupum á rannsóknarstarfsemi Xbrane í Svíþjóð getum við svo sett enn meiri kraft í lyfjaþróunina. Við viljum halda utan um alla þætti í þróun og framleiðslu hliðstæðnanna og eru kaupin í byrjun júlí á starfsemi Ivers-Lee, sem sérhæfir sig í pökkun lyfja, liður í því.“

Þar kemur einnig fram að forsvarsmenn Alvotech hafi á fyrri hluta ársins gert tvo samninga um aukið samstarf við Advanz Pharma um markaðssetningu í Evrópu á fjórum líftæknilyfjahliðstæðum sem eru í þróun.

Þá var einnig gerður samningur við Dr. Reddy‘s Laboratories Ltd. um þróun, framleiðslu og markaðssetningu á fyrirhugaðri hliðstæðu en samningurinn felur í sér að félögin muni deila kostnaði og ábyrgð á þróun og framleiðslu hliðstæðunnar.

Einnig var lokið við kaup á rannsóknarstarfsemi líftæknifyrirtækisins Xbrane í Stokkhólmi og lyfjahugviti tengdu fyrirhugaðri hliðstæðu við líftæknilyfið Cimzia.

Þá sömdu forsvarsmenn félagsins við lánveitendur um að lækka vexti á langtímaskuldum og lækkar vaxtakostnaður Alvotech á fyrstu tólf mánuðunum eftir vaxtalækkunina um rúmar 8,2 milljónir dala. Það samsvarar um einum milljarði króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×