Fótbolti

Ingi­björg seld til Freiburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir er í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu.
Ingibjörg Sigurðardóttir er í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu. vísir/anton

Íslenska landsliðskonan í fótbolta, Ingibjörg Sigurðardóttir, hefur verið seld frá Brøndby til Freiburg.

Ingibjörg gekk í raðir Brøndby fyrir ári og lék 24 leiki fyrir liðið. Áður en hún fór til Danmerkur lék hún með Duisburg í Þýskalandi.

„Ég er mjög þakklát fyrir árið hjá félaginu. Þetta hefur verið mikilvægt skref á ferlinum, bæði persónulega og hvað fótboltann varðar. Ég hef lært margt og spilað með frábærum leikmönnum. Núna hlakka ég til nýrra áskorana hjá Freiburg,“ sagði Ingibjörg í frétt á heimasíðu Brøndby.

Freiburg endaði í 5. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Næsta tímabil hefst 5. september en þá verða liðin í deildinni fjórtán í stað tólf áður.

Ingibjörg, sem verður 28 ára í október, hefur leikið erlendis síðan 2018, fyrst með Djurgården í Svíþjóð, svo Vålerenga í Noregi, Duisburg í Þýskalandi og svo Brøndby.

Ingibjörg hefur leikið 78 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað tvö mörk. Hún lék alla þrjá leiki Íslands á EM í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×