Erlent

Albanese segir Netanyahu í af­neitun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Albanese segir Netanyahu í afneitun.
Albanese segir Netanyahu í afneitun. AP/AAP/Mick Tsikas

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, segir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísarel, í afneitun hvað varðar afleiðingar stríðsreksturs Ísraels á Gasa.

Albanese greindi frá því í morgun að hann hefði rætt við Netanyahu og greint honum frá ákvörðun stjórnvalda í Ástralíu um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki og feta þannig í fótspor Bretlands, Frakklands og Kanada.

Forsætisráðherrann sagði Netanyahu hafa ítrekað það sem hann hefði sagt opinberlega; að ríkin væru með þessu að verðlauna Hamas. Þá sagði Albanese að svo virtist sem Netanyahu væri í algjörri afneitun varðandi ástandið.

„Stöðvun neyðaraðstoðar og mannfallið sem er að verða við dreifingu aðstoðarinnar, þar sem fólk er drepið þar sem það bíður í röð eftir mat og vatni, er bara algjörlega óásættanlegt. Og við höfum sagt það,“ sagði Albanese.

Netanyahu sagði um helgina að ákvarðanir ríkja, þeirra á meðal Ástralíu, um að viðurkenna sjálfstæða Palestínu væru „skammarlegar“.

„Þeir vita hvað þeir myndu gera ef hræðileg árás ætti sér stað í Melbourne eða Sydney. Ég held að þið mynduð gera að minnsta kosti það sem við erum að gera,“ sagði Netanyahu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×