Fótbolti

Tók Ara ekki nema tvær mínútur að skora

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ari Sigurpálsson var fljótur að skora fyrir Elfsborg.
Ari Sigurpálsson var fljótur að skora fyrir Elfsborg. IF Elfsborg

Ari Sigurpálsson kom Elfsborg yfir aðeins tveimur mínútum eftir að hann kom inn á, í 1-2 sigri á útivelli gegn BK Hacken.

Ara var skipt inn á 73. mínútu, staðan var þá markalaus en hann var snöggur að breyta því og skoraði á 75. mínútu eftir stoðsendingu Per Frick.

Arber Zeneli bætti svo marki við fyrir Elfsborg, sem betur fer fyrir þá því heimamenn Hacken áttu eftir að skora í uppbótartíma, lokatölur 1-2.

Þetta var þriðja mark Ara á tímabilinu en hann hefur komið við sögu í sextán af átján leikjum liðsins.

Mikael og Gísli gerðu jafntefli

Mikael Neville Anderson og Gísli Eyjólfsson mættust í Íslendingaslag Djurgarden og Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Þetta var fjórði leikur Mikael síðan hann gekk til liðs við Djurgarden í sumar en hann hefur ekki enn komist á blað.

Djurgarden situr í sjöunda sæti sænsku deildarinnar en Halmstad í því tólfta.

Kristall mættur aftur en spilaði ekki

Kristall Máni Ingason var í leikmannahópi Sönderjyske í dönsku úrvalsdeildinni en kom ekki við sögu í 3-2 sigrinum gegn Nordsjælland.

Þetta var þriðji leikur Sönderjyske á nýhöfnu tímabilinu en Kristall hefur ekkert komið við sögu síðan hann meiddist í apríl.

Daníel Leó Grétarsson var að vana í byrjunarliði Sönderjyske og spilaði allan leikinn vinstra megin í þriggja manna miðvarðalínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×