Innlent

Verbúðarstemning á Hjalt­eyri og nóg af ástarpungum fyrir alla

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það verður meira en nóg að gera á hátíðarhöldum dagsins á Hjalteyri í Hörgársveit í dag.
Það verður meira en nóg að gera á hátíðarhöldum dagsins á Hjalteyri í Hörgársveit í dag. Aðsend

Ein af hátíðum helgarinnar er á Hjalteyri í Hörgársveit en þar búa fimmtíu manns. Boðið verður upp á verðbúðarstemmingu, veiði á bryggjunni, grillveislu, kyndlagöngu og í kvöld verður flugeldasýning við hafnargarðinn.

Stóru útihátíðatíðirnar um verslunarmannahelgina fá yfirleitt mestu umfjöllunina í fjölmiðlum, sem von er en á sama tíma eru smærri hátíðir haldnar hér og þar um landið, sem er kannski ekki mikið fjallað um. Ein af hátíðum helgarinnar er þar en það er fjölskylduhátíð á Hjalteyri á Norðurlandi, sem stendur þó bara yfir í dag, 2. ágúst.

Maðurinn, sem sér um skipulagningu hátíðarinnar er Jón Þór Brynjarsson, sem er einn af fimmtíu íbúum á Hjalteyri.

„Við byrjum daginn klukkan 14:00 á því að opna verbúðina og þar verður ýmislegt. Það verður hægt að fá sér ástarpunga og lummur og ég veit ekki hvað og hvað. Svo erum við með leiksvæði hérna, sem verður opið allan daginn. Þar verður við með tvo hoppukastala, ærslabelg og ýmislegt fyrir börnin að gera,“ segir Jón Þór.

Jón Þór segir að fjölmargir komi á Hjalteyri um verslunarmannahelgina og taki þátt í dagskrá dagsins með sínu fólki.

„Já, þetta er búið að vera í mörg, mörg ár. Við erum alltaf aðeins að bæta í. Svo endum við um kvöldið þar sem við verðum með grillveislu en sú veisla fer fram í gömlum síldartanki“, segir Jón.

Jón Þór Brynjarsson, alltaf kallaður Jonni, sem sér um hátíðarhöld dagsins á Hjalteyri í dag.Aðsend

Þannig að það er heilmikil stemning á Hjalteyri í dag?

„Já, já, og veðrið bara stefnir í að verða gott, þannig að þetta lítur vel út,“ segir Jón Þór og bætir við.

„Svo erum við með dagskrá í gömlu síldarverksmiðjunni, það er komin ýmis starfsemi þar. Þar verða opnar vinnustofur en þar er gullsmiður, það er sútun, það eru listsýningar og það er bara eitthvað fyrir alla. Það er líka bara gaman að rölta um Hjalteyri og skoða gömlu síldarverksmiðjuna og gömlu húsin, þannig að það ætti að vera eitthvað fyrir alla,“ sagði Jón Þór kátur og hress.

Um 50 manns búa á Hjalteyri.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×