Erlent

Segja 30 hafa látist í skot­á­rás Ísraelshers við dreifingu neyðargagna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk flykkist að eftir lendingu neyðargagna í Zawaida í gær.
Fólk flykkist að eftir lendingu neyðargagna í Zawaida í gær. AP/Abdel Kareem Hana

Yfirvöld á Gasa segja 30 hafa látist í skotárás Ísraelshers á hóp fólks sem var að bíða eftir dreifingu neyðargagna norður af Gasa-borg í gær. Um 300 eru sagðir hafa særst.

Herinn segist ekki hafa vitneskju um málið en það sé í athugun.

Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, skammstafað OCHA, segir svokölluð hlé á aðgerðum Ísrael á Gasa ekki hafa haft tilætluð áhrif; það er að segja að auka aðgengi íbúa að neyðaraðstoð.

Fólk sé enn að deyja úr vannæringu.

Steve Witkoff, sendifulltrúi Bandaríkjanna, er væntanlegur til Ísrael í dag. Hann hefur átt aðkomu að samningaviðræðum milli fulltrúa Ísrael og Hamas en upp úr þeim slitnaði í síðustu viku, þegar Bandaríkin og Ísrael kölluðu fulltrúa sína heim.

Witkoff mun funda með ráðamönnum í Ísrael til að ræða næstu skref varðandi ástandið á Gasa.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrir sitt leyti brugðist við þeim fregnum að Kanada hyggist viðurkenna Palestínu.

„Vá! Kanada hefur tilkynnt að það hyggist viðurkenna sjálfstæða Palestínu. Það mun gera okkur mjög erfitt fyrir að gera viðskiptasamning við þá. Ó, Kanada!!!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×