Handbolti

Stelpurnar fóru illa með færeyrsku frænkur sínar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar í sautján ára landsliðinu byrja vel á EM.
Stelpurnar í sautján ára landsliðinu byrja vel á EM. @hsi_iceland

Íslenska sautján ára landslið kvenna í handbolta var í miklu stuði í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í Svartfjallalandi.

Ísland vann þá átján marka sigur á Færeyjum, 33-15, eftir að hafa verið tíu mörkum yfir í hálfleik, 16-6.

Íslenska liðið er nýkomið frá Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar þar sem stelpurnar unnu söguleg bronsverðlaun.

Þær stóðu sig frábærlega þar og héldu uppteknum hætti í fyrsta leik EM.

Staðan var 5-4 fyrir íslenska liðið eftir rúmar sjö mínútur en þá gaf íslenska liðið í, skoraði sex mörk í röð og vann restina af hálfleiknum 11-2. Danijela Sara B. Björnsdóttir varði 53 prósent skotanna sem á hana komu í hálfleiknum eða sjö af þrettán.

Eftir þessar frábæru tuttugu mínútur í seinni hálfleiknum var ljóst hvernig leikar færu og íslensku stelpurnar stýrðu skútunni vasklega í höfn í þeim síðari.

Laufey Helga Óskarsdóttir var komin með fimm mörk í hálfleik og var markahæst með sex mörk úr aðeins sjö skotum. Agnes Lilja Styrmisdóttir var einnig með sex mörk og af líka þrjá stoðsendingar. Ebba Guðríður Ægisdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir skoruðu báðar fimm mörk.

Laufey er dóttir Valsarans mikla og þjálfarans frábæra Óskars Bjarna Óskarssonar og er þá yngri systir landsliðsmannanna Arnórs Snæs og Benedikts Gunnars. Hún skoraði tólf mörk í sigri á Hollandi í bronsleiknum um síðustu helgi.

Díana Guðjónsdóttir er þjálfari liðsins og með henni er Hilmar Guðlaugsson.

Íslenska liðið er líka í riðli með Hollandi og Sviss sem mætast innbyrðis seinna í dag. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í milliriðil og um leið í hóp tólf efstu þjóða á mótinu.

Ísland varð í fimmtánda sæti á þessu móti fyrir tveimur árum en komst ekki á Evrópumótin 2019 eða 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×