Enski boltinn

Liverpool langt komið með að kaupa Ekitike

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Ekitike fagnar sigri í leik Eintracht Frankfurt á síðustu leiktíð.
Hugo Ekitike fagnar sigri í leik Eintracht Frankfurt á síðustu leiktíð. Getty/Sebastian El-Saqqa

Liverpool er á lokasprettinum í að ganga frá kaupunum á franska framherjanum Hugo Ekitike frá Eintracht Frankfurt.

Breska ríkisútvarpið hefur það úr mörgum áttum að Liverpool stefni á það að ganga frá kaupunum um helgina. Erlendir fjölmiðlar keppast við að flytja fréttir af þessum nú líklegum kaupum Englandsmeistaranna.

Kaupverðið verður meira en sjötíu milljónir punds. Newcastle bauð sjötíu milljónir punda í Ekitike en því tilboði hafnaði þýska liðið. Newcastle hefur núna dregið sig út úr kapphlaupinu.

Ekitike er spenntur fyrir því að reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni og Liverpool er á eftir framherja. Fabrizio Romano segir að Liverpool sé búið að semja um kaup og kjör við leikmanninn og nú sé bara að komast að samkomulagi um kaupverð.

Ekitike er 23 ára gamall og skoraði 15 mörk í 31 leik fyrir þriðja besta liðið í þýsku deildinni. Hann gaf líka átta stoðsendingar.

Ekitike er óhræddur við að láta vaða en enginn leikmaður í þýsku deildinni skaut oftar á markið en hann í fyrravetur.

Liverpool sýndi Alexander Isak, framherja Newcastle, einnig áhuga en Newcastle hefur margítrekað það að Svíinn sé ekki til sölu.

Liverpool hefur látið til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar. Félagið keypti Florian Wirtz frá Leverkusen og bakverðina Milos Kerkez og Jeremie Frimpong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×