Skoðun

Vonar­svæði fyrir fram­tíðina – á­byrgð stjórn­valda kallar á verndun

Huld Hafliðadóttir og Heimir Harðarson skrifa

Í frumvarpi til laga um lagareldi frá 2024, sem náði ekki fram að ganga á sínum tíma, var lagt til að Eyjafjörður og Skjálfandi yrðu meðal þeirra friðunasvæða við strendur Íslands þar sem laxeldi í sjókvíum er óheimilt. Það var í takt við vilja heimamanna sem höfðu skorað á stjórnvöld þar að lútandi. Það var líka í takt við þá staðreynd að þar er að finna fyrsta og eina hafsvæði á Íslandi sem heyrir til svokallaðra Vonarsvæða.

Hafsvæðið við Norðausturland – Eyjafjörður, Skjálfandi og Grímsey – hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem fyrsta Vonarsvæðið (e. Hope Spot) á Íslandi. Slík svæði eru skilgreind af Mission Blue á grundvelli líffræðilegrar sérstöðu og samfélagslegs mikilvægis og kalla á verndun til að tryggja heilbrigði hafsins til framtíðar. Svæðið er heimkynni fjölbreytilegs lífríkis, þar á meðal sjófugla, sela, hvala, smádýra og viðkvæmra vistkerfa; auðlinda sem ekki má fórna fyrir skammtímahagsmuni.

Vonarsvæðin eru nú yfir 150 víða um heim og gegna á mörgum stöðum lykilhlutverki í opinberri stefnumótun og verndun hafsvæða, t.a.m. á Svalbarða, í Skotlandi og Svíþjóð, auk þekktra svæða á borð við Galápagos-eyjar og Great Barrier Reef. Þau eru mikilvægar vörður í átt að markmiði Sameinuðu þjóðanna um að vernda að minnsta kosti 30% hafsvæða fyrir árið 2030, markmið sem Ísland hefur skuldbundið sig til að ná.

Í nýlegri yfirlýsingu staðfesti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið að Ísland muni styrkja verndun vistkerfa í hafinu með innleiðingu vistkerfisnálgunar, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um plastmengun og líffræðilega fjölbreytni.

Eyjafjörður og nærliggjandi hafsvæði eru nú þegar vettvangur sjálfbærrar atvinnustarfsemi eins og hvalaskoðunar, rannsókna, smábátaútgerðar, köfunar og náttúruferðamennsku; greina sem allar byggja á heilbrigðu vistkerfi og njóta trausts og þátttöku samfélagsins. Á svæðinu starfa einnig grasrótarsamtök á borð við SUNN, SVÍVS og Ocean Missions sem leggja grunn að fræðslu og verndarstarfi.

Þrátt fyrir þessa sérstöðu og yfirlýsingar stjórnvalda liggja nú fyrir áform um sjókvíaeldi í Eyjafirði – í beinni andstöðu við markmið Vonarsvæðisins og þá framtíðarsýn sem samfélagið hefur þegar hafið að móta. Sjókvíaeldi hefur víða reynst skaðlegt viðkvæmum vistkerfum; það stuðlar að mengun frá fóðri og úrgangi, erfðablöndun við villta stofna og eykur hættu á útbreiðslu sjúkdóma, auk þess sem slíkt inngrip í vistkerfið hefur áhrif á aðra villta stofna, eins og lundann, sem nú þegar hefur fækkað verulega við Íslandsstrendur á síðustu áratugum.

Þessi iðnvæðing hafsins hefur einnig bein áhrif á ofantaldar atvinnugreinar sem treysta á sjálfbæra nýtingu náttúrunnar og ímynd Íslands sem hreins og ósnortins lands. Þar með stendur sjókvíaeldi ekki aðeins náttúrunni fyrir þrifum, heldur dregur einnig úr langtímamöguleikum samfélagsins til sjálfbærrar atvinnusköpunar.

Það er augljóst að sjókvíaeldi af þessu tagi gengur þvert á yfirlýsta stefnu Íslands og grefur undan trúverðugleika landsins í málefnum hafsins.

Nýleg könnun sýnir að einungis 10% íbúa við Eyjafjörð hafa jákvæða afstöðu til sjókvíaeldis í Eyjafirði. Heimamenn hafa hafnað þeirri hugmynd að fórna náttúrunni fyrir framkvæmd sem hvorki stenst vistfræðileg rök né samfélagslega ábyrgð. Það er nú á ábyrgð stjórnvalda að hlusta. Hér er tækifæri til að ganga í takt við náttúruna, styðja sjálfbærar atvinnuleiðir og vernda það sem ekki verður endurheimt, ef það tapast.

Vonarsvæðið á Norðausturlandi er ekki bara hugmynd, það er staðreynd. Spurningin er einföld: Ætlum við að standa vörð um það sem okkur hefur verið treyst fyrir eða fórna því fyrir skammtímahagsmuni og óafturkræf umhverfisspjöll?

Undirrituð hvetja stjórnvöld eindregið til að friða Vonarsvæðið við Eyjafjörð, Grímsey og Skjálfanda fyrir sjókvíaeldi í nýju lagafrumvarpi sem unnið er að hjá Atvinnuvegaráðuneytinu um þessar mundir.

Huld Hafliðadóttir formaður SVÍVS

Heimir Harðarson einn af stofnendum Ocean Missions




Skoðun

Sjá meira


×