Erlent

Geim­far SpaceX splundraðist eftir 45 mínútna flug

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Geimfarinu Starship skotið á loft í Texas í gærkvöldi.
Geimfarinu Starship skotið á loft í Texas í gærkvöldi. AP

Starship-geimfarið sem fyrirtækið SpaceX, sem er í eigu Elons Musk, splundraðist 45 mínútum eftir að því var skotið á sporbaug um jörðu í gærkvöld. Geimskotið var það níunda í röð hjá SpaceX sem stefna á að komast til tunglsins og síðan til annarra reikistjarna.

Geimskutlan er um 123 metrar að lengd og samanstendur af eldflaug á stærð við Hallgrímskirkju og um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship.

Sjá einnig: Annað Starship sprakk í loft upp

Síðustu tvö geimskot SpaceX fyrir daginn í gær misheppnuðust og sprungu geimförin þá í loft upp. Geimskipin sjálf Starship 8 og Starship 7 sprungu en það gerðu Super Heavy-eldflaugarnar ekki og tókst starfsmönnum SpaceX að grípa þær með sérstökum vélarörmum.

Eldsneytisleki og sprenging yfir Indlandshafi

Níunda geimfarið ferðaðist lengra en fyrri geimför SpaceX en varð stjórnlaust þegar eldsneyti tók að leka úr farinu. Geimfarið hafði þá verið 45 mínútur í loftinu og var búið að ferðast hálfan hring um jörðina. Geimfarið hringsnerist stjórnlaust og sprakk loks yfir Indlandshafi.

Ekki tókst heldur að hleypa gervitunglum út úr geimfarinu þar sem dyr farsins opnuðust ekki rétt. Í tilkynningu frá SpaceX sagði að geimfarið hefði þolað „snögga óskipulagða sundurhlutun“ eða sprungið í sundur.

Musk sjálfur lýsti því yfir á X (áður Twitter) að geimskotið hefði verið „mikil bæting“ frá síðustu tveimur geimskotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×