Innlent

Ung­liða­hreyfing Við­reisnar á­lyktar gegn á­kvörðun ríkis­stjórnarinnar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ný stjórn Uppreisnar, frá vinstri: Arnar Steinn Þórarinsson, Ísak Leon Júlíusson, Oddgeir Páll Georgsson, Sverrir Páll Einarsson, Una Rán Tjörvadóttir, Úlfur Atli Stefaníuson, Hjördís Lára Hlíðberg.
Ný stjórn Uppreisnar, frá vinstri: Arnar Steinn Þórarinsson, Ísak Leon Júlíusson, Oddgeir Páll Georgsson, Sverrir Páll Einarsson, Una Rán Tjörvadóttir, Úlfur Atli Stefaníuson, Hjördís Lára Hlíðberg.

Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, hélt sitt árlega Landsþing 17. maí síðastliðinn, kaus þar nýja framkvæmdastjórn og ályktaði gegn áformum ríkisstjórnarinnar um afnám samsköttunar.

Landsþingið ályktaði að áform ríkisstjórnarinnar gangi gegn stefnu Viðreisnar og sé þvert á það sem flokkurinn talaði um í síðustu Alþingiskosningum. 

Ný framkvæmdarstjórn Uppreisnar var kosinn á þinginu en laganeminn Sverrir Páll Einarsson hlaut kjör sem forseti hreyfingarinnar og tók þar við af Gabríeli Ingimarssyni sem hafði gegnt tveggja ára formennsku í hreyfingunni. 

Aðrir stjórnarmeðlimir sem náðu kjöri eru Una Rán Tjörvadóttir varaforseti og meðstjórnendurnir Oddgeir Páll Georgsson, Ísak Leon Júlíusson, Arnar Steinn Þórarinsson, Hjördís Lára Hlíðberg og Úlfur Atli Stefaníuson.

Andstaða gegn afnámi samsköttunar

Uppreisn lýsti á Landsþinginu yfir eindreginni andstöðu við fyrirhugað afnám samsköttunar skattþrepa maka sem kynnt hefur verið af ríkisstjórninni.

„Einsett loforð í kosningum var að hækka ekki tekjuskatt. Viðreisn stendur gegn skattahækkunum á tekjuskatti einstaklinga. Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða beina skattahækkun þá leiðir breytingin óhjákvæmilega til þess að launafólk mun þurfa að greiða meira í tekjuskatt,“ sagði í ályktuninni.

Uppreisn skoraði því á ríkisstjórnina að endurskoða afstöðu sína og ráðast ekki í fyrirhugaðar breytingar. Uppreisn standi gegn öllum breytingum sem leiða til greiðslu hærri tekjuskatts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×